Æfa "Tjaldið" eftir Hallgrím Helgason
Yggdrasil – leikfélag VMA – æfir þessa dagana leikritið „Tjaldið“ eftir Hallgrím Helgason, sem er nýlegt leikverk sem hann skrifaði fyrir Þjóðleik. Leikstjórar eru þau Pétur og Jokka – Pétur Guðjónsson og Jóhanna Guðný Birnudóttir, sem komu síðast við sögu í leiklistinni á Akureyri sl. haust með því að semja söngleikinn Berness & franskar á milli, sem var sýnt í Sjallanum við góðar undirtekir. Stefnt er að frumsýningu á Tjaldinu 9. apríl .
Viðfangsefni „Tjaldsins“ er útihátíð og afleiðingar atburðar sem þar á sér stað. „Þetta er vissulega mjög áleitið verk og vekur mann til umhugsunar,“ segir Jón Stefán Kristinsson, formaður Yggdrasils, en ekki liggur endanlega fyrir hvar verkið verður sýnt á Akureyri.
„Við tökum síðan þátt í leiklistarhátíðinni Þjóðleik helgina 12.-14. apríl, þar sem níu leikhópar úr framhalds- og grunnskólum af Norðurlandi koma saman hér á Akureyri,“ segir Jón Stefán.
Þjóðleikur er leiklistarhátíð ungs fólks á landsbyggðinni, sem Þjóðleikhúsið hefur frumkvæði að. Þekkt íslensk leikskáld eru fengin til að skrifa krefjandi og spennandi verk fyrir 13-20 ára leikara sem svo eru sett upp í hinum ýmsu byggðum landsins. Lokahátíðir eru haldnar að vori þar sem allar sýningar í hverjum landsfjórðungi koma saman á stórri leiklistarhátíð. Markmiðið með Þjóðleik er að tengja Þjóðleikhúsið við ungt fólk á landsbyggðinni og efla þannig bæði áhuga þeirra og þekkingu á leiklist.