Æfingar hafnar á Bugsy Malone
Æfingar eru hafnar á söngleiknum Bugsy Malone sem Leikfélag VMA frumsýnir í febrúar á næsta ári í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri en frá uppfærslunni var greint hér á heimasíðunni í upphafi skólaársins.
Fyrr í þessum mánuði voru leik- og söngprufur fyrir uppfærsluna og voru um þrjátíu manns sem mættu í prufur. Allir munu koma við sögu í uppfærslunni en hlutverk í sýningunni eru um 40 talsins. Auk þess leggur fjöldi fólks hönd á plóg við hin ýmsu verkefni sem vinna þarf við stóra uppfærslu eins og Bugsy Malone – hárgreiðslu, leikmynda- og búningagerð o.s.frv.
Leikhópurinn hittist í VMA í gær, sunnudag, og las saman leikritið og að loknum þeim samlestri var endanlega ákveðið með skipan í hlutverk í sýningunni.
Gunnar Björn Guðmundsson er leikstjóri og Jokka G. Birnudóttir aðstoðarleikstjóri. Gunnar Björn hefur ekki áður leikstýrt hjá Leikfélagi VMA en Jokka þekkir vel til leiklistarstarfsins í VMA því hún hefur komið að uppfærslum félagsins síðustu ár. Þórhildur Örvarsdóttir söngkona mun raddþjálfa leikhópinn eins og hún gerði við uppfærslu Ávaxtakörfunnar sl. vetur.
Æfingatíminn á Bugsy Malone er langur. Æfingatímabilið verður annars vegar núna frá miðjum október og fram í desemberbyrjun og síðan hefjast æfingar á fullu eftir áramót og ef að líkum lætur verður æfingatörnin stíf eftir að leikhópurinn byrjar að æfa á sviðinu í Hofi. Til að byrja með verður ekki síst lögð áhersla á að æfa hópsenurnar í verkinu, sem eru fjölmargar, og þar kemur tónlistin við sögu.