Æfingin skapar meistarann
Það er með nám í hársnyrtiiðn eins og svo margt annað að æfingin skapar meistarann. Þegar litið var inn í kennslustofu í hársnyrtiiðn í vikunni voru nemendur á fimmtu önn, sem ljúka námi næsta vor, að vinna með permanent. Þessi áfangi er sá fimmti sem nemendur taka í permanenti – þeir hafa tekið einn permanentáfanga á hverri önn frá upphafi námsins - og segir Hildur Salína Ævarsdóttir kennari að smám saman sé aukið við þekkinguna á þessu sviði á hverri önn, til að byrja með sé fyrst og fremst farið í grunnatriðin en síðan prófi nemendur sig áfram með mismunandi útfærslur á upprúlli og notkun á þeim efnum sem notast sé við í permanenti. Hildur Salína segir mikilvægt að gera margar slíkar æfingar, á þessari önneru níu æfingar í permanenti, því það sé fyrst og síðast æfingin sem skapi meistarann.
Að þessari önn lokinni eiga útskriftarnemendur eftir eina önn í hársnyrtiiðn. Þetta er fyrsti hópurinn sem mun ljúka sex anna námi í greininni frá VMA. Í samstarfi við hársnyrtistofur hefur verið unnið að því að þróa vinnustaðaþjáfun og vinna nemendur á stofum samtals í tuttugu vikur. Þessi útfærsla á vinnustaðaþjálfun í hársnyrtiiðn í VMA er nýmæli og er ánægja með hvernig til hefur tekist, bæði af hálfu atvinnulífsins og skólans. Dæmi er um að út úr vinnustaðaþjálfuninni hafi nemendur komist á samning en áskilinn tími námssamnings er 72 vikur áður en nemendur geta tekið sveinspróf.