Ætlaði að verða sirkuslistamaður
Viktor Jort Hollanders stefndi um tíma á að verða sirkuslistamaður og fór til Danmerkur og nam þau fræði þar. Ýmislegt varð þó til þess að hann sneri aftur til Akureyrar og nú stefnir hann að því að ljúka stúdentsprófi af listnámsbraut VMA í desember nk.
Sextán ára gamall kom Viktor í VMA og prófaði ýmislegt, byrjaði á almennri braut og fór síðan í húsgagnasmíði. Þegar hann horfir til baka segist hann hafa verið einn af þeim framhaldsskólanemum sem var leitandi og var ekki viss hvað hann vildi verða þegar hann yrði stór. En síðan fékk hann þá hugmynd að fara í sirkuslistnám í Danmörku og lét verða af því. Vegna fráfalls föður síns, Georgs Hollanders, árið 2014 kom hann heim en fór síðar aftur út og ætlaði að halda áfram náminu þar sem frá var horfið. Þau plön breyttust og hann kom aftur heim. „Í öllu þessu var alltaf ákveðinn þröskuldur sem ég átti eftir að fara yfir og það var að ljúka stúdentsprófi. Það var því mín niðurstaða að fara aftur í VMA og það gerði ég sl. haust og fór á listnámsbraut. Ég neita því ekki að það var svolítið skrítið að koma hingað aftur eftir langt hlé. Ýmislegt hafði breyst en annað var eins og það var. En stærsta breytingin er að núna hef ég allt annað viðhorf til námsins en áður. Núna er ég 24 ára gamall og horfi allt öðruvísi á hlutina en þegar ég kom hingað 16 ára gamall. Þegar maður er sextán ára er ekki efst á baugi hvað maður tekur sér fyrir hendur að loknum framhaldsskóla. En það er annað uppi á teningnum hjá mér núna. Núna horfi ég til þess hvað ég geri þegar þessum áfanga lýkur. Ég vil ekki segja að ég hafi ákveðið nákvæmlega hvað ég stefni á en hins vegar hefur forritun kveikt í mér og það er aldrei að vita nema maður skoði þá möguleika betur,“ segir Viktor.
Á haustönn var Viktor í áfanga hjá Björgu Eiríksdóttur á listnámsbraut þar sem hann málaði „Herbergi“. Verkið hangir nú uppi á veggnum gegnt austurinngangi VMA. Viktor segir Ragnar Kjartansson myndlistarmann hafa haft áhrif á sig og hann sæki m.a. hugmyndir til hans. Í þessu verki segist Viktor sækja fígúrurnar í skissur sem hann geri reglulega á hina og þessa miða og í verkinu færi hann þær inn í herbergisrými með grænum sófa.