Af íþróttabrautinni í einkaþjálfarann
Þegar Harpa Lind Hjálmarsdóttir hóf nám á íþróttabraut VMA á sínum tíma beindist áhugi hennar að líkamsrækt og hollri hreyfingu og hún sá fyrir sér í framtíðinni að leiðbeina öðrum og þjálfa. Og það hefur gengið eftir, í dag starfar Harpa Lind sem einkaþjálfari á Akureyri, leiðbeinir í hóptímum og er þar að auki með fjarþjálfun.
„Ég lauk náminu í VMA í desember 2017. Það kom aldrei annað til greina en að fara í þetta nám í VMA því ég hafði strax í grunnskóla mikinn áhuga á líkamsrækt. Þegar ég hugsa til baka held ég að áhuginn hafi kviknað fyrir alvöru þegar ég var á unglingastigi í grunnskóla og horfði á Biggest Looser þættina í sjónvarpinu. En ég var auðvitað sjálf á fullu í íþróttum. Prófaði ýmislegt, stundaði lengi listhlaup á skautum en hætti því og færði mig yfir í líkamsræktina,“ segir Harpa Lind. Hún fór í modelfitness og síðar í crossfit, fór að kenna í hóptímum og lærði einkaþjálfun í Einkaþjálfaraskóla Word Class.
„Í dag starfa ég á leikskóla en kenni auk þess í hóptímum í Norður hér á Akureyri og er einnig með einkaþjálfun. Þá er ég ásamt manni mínum, Sigþóri Gunnari Jónssyni, með fjarþjálfun, aðallega á Instagram og Facebook undir nafninu HLH Training. Þar erum við til dæmis nýbyrjuð með lífstílsbreytingarnámskeið og svo erum við með þessa venjulegu fjarþjálfun; æfingaprógram, ráðleggingar um næringu, mælingar, eftirfylgni o.fl. Ég fór í einkaþjálfaranámið eftir VMA og byrjaði með fjarþjálfunina sumarið 2018. Ég var ein með þetta fyrstu árin en Sigþór kom inn í þetta með mér í lok sumars 2020.“
Sigþór Gunnar var einnig á íþróttabraut VMA og þar kynntust þau. Þau eiga tveggja ára barn og annað er á leiðinni.
„Námið á íþróttabrautinni í VMA nýttist mér mjög vel þegar ég fór í einkaþjálfaranámið. Það var margt kunnuglegt úr náminu í VMA, til dæmis varðandi vöðvafræði, líffræði og almennt um hvernig líkaminn starfar,“ segir Harpa Lind og segist ekki gera ráð fyrir öðru en að halda ótrauð áfram á þessari braut. „Mér finnst þetta mjög skemmtilegt. Sjálf hef ég brennandi áhuga á öllu sem viðkemur heilsu og líkamsrækt og það gefur mér alveg sérstaklega mikið þegar fólk sem ég er að kenna nær miklum og góðum árangri. Það veitir mér viðbótar ánægju og er mjög gefandi,“ segir Harpa Lind Hjálmarsdóttir.