Af köldu vatni og frárennsli
Hreint vatn er alls ekki sjálfsögð auðlind og að sama skapi er alls ekki sjálfgefið að það streymi úr krönum á heimilum landsmanna. Vatn er undirstaða lífs á jörðinni, svo einfalt er það.
Í þemavikunni sem nú er í VMA er sjónum beint að þremur að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, m.a. hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu fyrir jarðarbúa. Við Íslendingar búum svo vel að hafa góðan aðgang að hreinu vatni. Flest hugsum við trúlega ekki út í það dags daglega hversu mikil lífsþægindi það eru að fá hreint og gott vatn inn í húsin okkar, en það er langt í frá að vera sjálfsagður hlutur.
Í athyglisverðum fyrirlestri í þemavikunni í VMA í gær fjallaði Hrönn Brynjarsdóttir, gæða-, umhverfis- og öryggisstjóri hjá Norðurorku um kaldavatnslindir Akureyringa, vatnsverndarsvæðin og af hverju svo mikið er í húfi að halda þessum svæðum frá allri umferð ökutækja, sem geta mengað út frá sér.
Langmest af köldu neysluvatni Akureyringa kemur úr Sellandslindum á Glerárdal og Hesjuvallalindum í Hlíðarfjalli en einnig eru gjöfular vatnslindir fyrir Akureyri á Vöglum í Hörgárdal. Hrönn segir að fjórða vatnsuppsprettan sé í Vaðlaheiðargöngum. Hún segir ekki byrjað að dæla vatni þaðan en búið sé að rannsaka vatnið og það standist allar gæðakröfur. Innan fárra ára sé horft til þess að nýta það vatn fyrir veitukerfi Akureyrar, enda sé komin góð reynsla á að vatnsrennslið úr göngunum sé stöðugt.
Íslendingar eru stórnotendur á köldu vatni – með þeim stærri í heiminum. Vestræn þróunarríki nota að jafnaði margfalt meira vatn en þróunarlöndin. Hrönn segir að samkvæmt alþjóðlegum samanburði frá 2016 og vatnsnotkun Akureyringa það ár hafi hún áætlað að hver Íslendingur noti að jafnaði 400 lítra á dag af vatni. Inn í þessari tölu er vitaskuld öll vatnsnotkun atvinnufyrirtækja. Þetta er um það bil helmingi meiri notkun vatns en hjá Dönum.
Hrönn bendir á að mikilvægt sé að huga vel að nýtingu á þessari auðlind, vatni eigi ekki að sóa. Hún sagðist hafa reiknað út að á meðan Akureyringar bursti tennurnar renni hvorki meira né minna en um 100 þúsund lítrar af köldu vatni í gegnum veitukerfi Akureyringa. Og munar um minna!
Hrönn ræddi í fyrirlestri sínum einnig um fráveitukerfi Akureyringa. Í þeim efnum hafa orðið mikil straumhvörf með opnun hreinsistöðvar í Bótinni og því fer skolpvatn núna hreinsað til sjávar. Það sem af er þessu ári hafa um 30 tonn af allskonar rusli verið síuð í hreinsistöðinni sem eiga alls ekki að vera í frárennslisvatninu. Betur má ef duga skal!
Fjölmargt á ekki erindi í salernin. Hrönn nefndi ýmislegt, t.d. fitu og matarolíu, sem með tímanum breytist í fast form og sest innan í fráveiturörin.
Ýmislegt annað á ekki heima í klósettinu, t.d. tíðatappar, bleyjur, dömubindi, eyrnapinnar, svampar, plastpokar, blautþurrkur, sáraumbúðir, kattasandur, tuskur, tannþráður og lyf.