Af listsköpun í Marokkó
Í dag, þriðjudaginn 16. febrúar, kl. 17-17.40 heldur Hafdís Helgadóttir, myndlistarmaður, fyrirlestur í Ketilhúsinu á Akureyri í fyrirlestraröðinni Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu á Akureyri. Yfirskrift fyrirlestursins er Listabúseta í Marokkó og segir Hafdís frá listabúsetu og verkefni í Marokkó sem fjallaði um samleitni myndlistar og listhandverks og hvernig dvölin í Marokkó hafði áhrif á myndlist hennar. Hafdís sýnir myndir af eigin verkum og frá Marokkó og fjallar um þætti sem hafa haft áhrif á vinnu hennar, eins og hugleiðingar um formgerðir, náttúru og liti og menningarlegt hæglæti.
Hafdís Helgadóttir fæddist á Patreksfirði en býr og starfar í Reykjavík. Hún útskrifaðist frá málaradeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands og lauk meistaragráðu frá The Academy of Fine Art (dept. of Time and Space) í Helsinki 1996.
Á sínum myndlistarferli hefur Hafdís unnið með ýmsa miðla, t.d. myndbönd, teikningu, ljósmyndun, innsetningar og málverk.
Hún hefur tekið þátt í sýningum á Íslandi, þ.á.m. í Listasafni Íslands, Nýlistasafninu, Norræna húsinu, Listasafni Árnesinga og Landsbókasafni Íslands. Utan landsteinanna hefur Hafdís sýnt í Finnlandi, Færeyjum, Grænlandi, Þýskalandi og Marokkó. Hún hefur unnið og dvalið á gestavinnustofum á Álandseyjum, Gautaborg, Berlín og Marókkó.
Hafdís starfaði lengi í Myndlistaskólanum í Reykjavík, sat í stjórn Nýlistasafnsins auk kennslu og verkefna í Listaháskóla Íslands og víðar.
Sem fyrr er aðgangur ókeypis á fyrirlesturinn. Þriðjudagsfyrirlestrarnir eru samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, VMA, Gilfélagsins og Myndlistarfélagsins á Akureyri.