Farsælt samstarf rafiðnaðardeildar við atvinnulífið
Rafiðnaðardeild VMA hefur ætíð mætt miklum og góðum skilningi og notið velvildar atvinnulífsins – bæði á Akureyri og víðar. Þetta segir Óskar Ingi Sigurðsson, brautarstjóri rafiðnaðardeildar, og bætir við að náin tengsl deildarinnar við atvinnulífið séu afar mikilvæg, enda sé það sameiginlegt hagsmunamál skólans og atvinnulífsins að deildin sé vel sótt og vel tækjum búin þannig að kennslan sé markviss og góð.
Rafiðnaðardeild VMA er núna og hefur undanfarin ár verið mjög vel sótt. Rafmagnið heillar, enda áhugavert nám og góðar atvinnuhorfur fyrir bæði rafvirkja og rafeindavirkja. Allir nemendur sem hefja nám við deildina fara í grunnnám sem tekur tvö ár – fjórar annir – og síðan velja nemendur á milli þess að fara í rafvirkjun og rafeindavirkjun. Reyndar taka sumir nemendur bæði rafvirkjun og rafeindavirkjun og standa því enn betur að vígi á vinnumarkaðnum.
Nám í rafeindavirkjun var endurvakið í VMA árið 2012. Á árum áður var stór hluti af starfi þeirra að gera við t.d. sjónvörp og hljómflutningstæki sem og ýmsan rafeindabúnað um borð í fiskiskipum. Í dag hefur starf rafeindavirkjanna færst meira inn í tölvuheiminn – tölvustýringar og hugbúnað. Skilin á milli rafvirkjunar og rafeindavirkjunar eru þó ekki alltaf greinileg en í stórum dráttum má segja að rafvirkjar séu í uppsetningum en rafeindavirkjarnir séu meira í því að kafa inn í raftækin og greina þau.
Að loknu grunnnámi tekur við þriggja anna nám hjá bæði rafvirkja- og rafeindavirkjanemum og síðan þurfa nemendur að ljúka samningum hjá meisturum. Í það heila er námið því fjögur ár og að loknum þeim tíma geta nemendur farið í sveinspróf.
Á þesssari önn hófu þrettán nám í rafeindavirkjun og er þetta þriðji hópurinn sem hefur þetta nám síðan 2012. Frá þeim tíma hefur VMA útskrifað 22 rafeindavirkja. Nýverið fékk rafiðnaðardeild 15 lóðstöðvar og jafnmörg mælingaskóp sem deildin keypti fyrir fjármuni sem Félag rafeindavirkja færði deildinni að gjöf þegar nám í rafeindavirkjun var endurvakið árið 2012. Óskar Ingi Sigurðsson segir mikinn feng fyrir deildina að fá þennan tækjabúnað og hann nýtist afar vel í kennslustofunni sem nemendur í rafeindavirkjun hafa til umráða í skólanum.
Í júní sl. færðu Raftákn á Akureyri og Rönning rafiðnaðardeild VMA hálfa aðra milljón króna að gjöf í tilefni af 40 ára afmæli Raftákns á Akureyri og skyldi peningagjöfinni varið til kaupa á kennslubúnaði í ljósastýringarkerfum.
Fálkinn hefur ákveðið að gefa deildinni uppfærslu á hugbúnaði fyrir iðnaðartölvur (leyfisskyldur hugbúnaður) og verður gjöfin afhent fljótlega. Þá hefur Ljósgjafinn á Akureyri gefið deildinni á ári hverju handverkfæri að andvirði allt að 100 þúsund króna. Og heildsölufyrirtækin í rafiðnaðargeiranum á Akureyri – Rönning og Ískraft - hafa jafnan sýnt rafiðnaðardeild VMA mikinn velvilja með ýmsum gjöfum og stuðningi.
„Við höfum notið mikils velvilja hjá atvinnulífinu og við höfum á allan hátt átt mjög gott samstarf við það. Nemendum frá okkur sem hafa farið í vinnustaðaheimsóknir hefur alltaf verið vel tekið og einnig hefur almennt ríkt ánægja hjá fyrirtækjunum með þá nemendur sem hafa útskrifast frá okkur,“ segir Óskar Ingi Sigurðsson.
Eins og komið hefur fram er nú unnið að því að standsetja svokallaða FAB-Lab smiðju í VMA og hefur henni verið fundið húsnæði í tveimur kennslustofum sem rafiðnaðardeildin hafði til afnota. Í stað þessara kennslustofa hefur deildin fengið afnot af þremur kennslustofum á C-gangi skólans og komið þar fyrir ýmsum búnaði sem nýtist vel fyrir nám í rafvirkjun.