Afrekskona í fjallahjólreiðum og sjúkraliðanemi
Emilia Niewada flutti með foreldrum sínum og systur frá Póllandi til Íslands fyrir ellefu árum. Fyrsta árið bjó fjöskyldan á Grenivík en í áratug hefur hún búið á Akureyri. Árið 2010 fór Emilia á almenna braut í VMA og var síðan í þrjú ár á íþróttabraut. Tók sér þá hlé frá námi og vann um tíma, þar til hún tók upp þráðinn á nýjan leik sl. haust og skráði sig aftur til náms í VMA og er nú á sjúkraliðabraut.
„Ég vann um tíma á leikskóla og í frístund í Lundarskóla og þá var ég líka í heimaþjónustu. Í framhaldinu ákvað ég að fara í sjúkraliðanám. Ég hef mikinn áhuga á þessu og einbeiti mér núna að náminu,“ segir Emilia.
Áhugamál Emiliu númer eitt eru fjallahjólreiðar. Og hún er afrekskona á því sviði, hefur verið Íslandsmeistari í svokölluðum „downhill“-hjólreiðum síðustu fjögur ár og einnig keppir hún í Enduro fjallahjólreiðum. „Ég byrjaði í þessu fyrir sex árum, þá sautján ára gömul, þegar ég keypti fyrsta hjólið mitt. Það hefur verið gaman að fylgjast með vextinum í hjólreiðunum undanfarin ár, bæði í fjalla- og götuhjólreiðum. Þetta er skemmtilegt sport og margir af mínum bestu vinum eru í þessu sporti. Verslunin Sportver styður mig með því að láta mig hafa hjól. Það er mér mikils virði því góð fjallahjól kosta umtalsverðar fjárhæðir,“ segir Emilia.
Ekki aðeins hefur Emilia keppt hér heima. Hún hefur einnig farið út fyrir landsteinana til þess að keppa. Síðastliðið sumar lá leiðin til Kanada þar sem hún keppti í Enduro ásamt fleiri hjólreiðagörpum frá Íslandi. „Við búum svo vel hér á Akureyri að hafa mjög skemmtilega braut upp í Hlíðarfjalli þar sem ég æfi mig oft á sumrin. Yfir vetrarmánuðina er þetta erfiðara, í vetur stefni ég að því að halda mér í formi með því að fara mikið í ræktina,“ segir Emilia.
En hver er lykillinn að því að vera í fremstu röð í fjallahjólreiðum? Emilia segir að til að byrja með hafi hún hjólað mikið með sterkari hjólreiðamönnum og það hafi hjálpað sér til þess að taka framförum. „Mig langar til þess að fara meira út fyrir landsteinana og keppa þar, bæta mig og taka frekari framförum,“ segir Emilia.
Ásamt tveimur öðrum stúlkum tók Emilia þátt í að stofna fjallahjólreiðaklúbb fyrir stúlkur sem nefnist Kvenduro. „Okkur fannst vanta félagsskap fyrir stelpur í þessu sporti og því létum við verða af því að stofna klúbb. Þetta hefur gengið mjög vel og stofnun klúbbsins hefur vissulega náð tilgangi sínum,“ segir Emilia Niewada.
Hér má sjá nokkrar myndir af Emiliu í fjallahjólreiðum. Myndirnar voru teknar bæði hér á landi og erlendis.