Aftur í íþróttakennslu í VMA eftir tveggja ára Noregsdvöl
Haustið 2014 flutti Ólafur H. Björnsson, íþróttakennari við VMA, með fjölskyldu sinni til Noregs. Hugmyndin var að fjölskyldan yrði úti í eitt ár en dvölin ytra var framlengd um ár. En í sumar var aftur flutt til Akureyrar og Ólafur hóf störf á ný í VMA í ágúst og kennir sem fyrr íþróttir og heilsutengdar greinar á íþróttabraut.
„Við fluttum út haustið 2014 og þá sótti ég um ársleyfi hér í VMA. Ég hafði á sínum tíma lært í Íþróttaháskólanum í Oslo og var þar ytra í samtals þrettán ár en að þessu sinni fórum við á aðrar slóðir. Við settum okkur niður í litlum bæ sem heitir Raufoss, sem er skammt frá stærri bæ, Gjövik, en hann er 50 km sunnan við Lillehammer. Konan mín, sem er grunnskólakennari, fékk kennarastöðu í grunnskóla í Raufoss og hún átti auðvelt með að fá kennslu úti. Fyrir mig sem íþróttakennara var málið aðeins flóknara því íþróttakennarar í Noregi starfa nær eingöngu í framhaldsskólum. Íþróttakennsla í grunnskólum er að langmestu leyti í höndum almennra kennara. Niðurstaðan var sú að ég fékk hálfa stöðu íþróttakennara í framhaldsskóla í Gjövik, sem er álíka stór og VMA, en fljótlega hækkaði stöðuhlutfalllið og þegar upp var staðið var þetta orðin full staða. Þannig að það rættist ágætlega úr þessu. Þetta er bekkjakerfisskóli í nýlegu húsnæði með nemendur á aldrinum 16-19, bæði með verknáms- og stúdentsbrautir. Íþróttakennslan var ekki ólík því sem við þekkjum, en það má kannski segja að í Noregi sé minna farið í einstaka íþróttagreinar en hér þekkist en meiri áhersla lögð á grunnþjálfun, þ.e. þol, styrk, liðleika o.s.frv. Við bjuggum í Raufoss og því þurfti ég að fara á hverjum degi til Gjövik, þegar veður og færð leyfði hjólaði ég á milli, sem var mjög gott því út úr þessu fékk ég auðvitað fína hreyfingu.
Eftir að hafa verið úti í eitt ár höfðum við áhuga á að framlengja dvölina um ár, enda var töluvert mál að rífa sig upp og flytja á milli landa fyrir eitt ár. Við fengum því áframhaldandi leyfi frá störfum okkar hér heima og framlengingu á störfum okkar í Noregi.
Okkur leið mjög vel í Noregi en niðurstaðan var þó sú, ekki síst vegna barnanna okkar, að koma aftur heim. Við eigum þrjú börn og elsti sonur okkar er að hefja nám í framhaldsskóla núna í haust. Þetta var því ágætis tímapunktur til þess að koma aftur heim,“ segir Ólafur og bætir við að dvölin ytra hafi verið mjög góður skóli fyrir alla fjölskylduna og börn þeirra hafi náð að tileinkað sér norskuna á meðan á dvölinni ytra stóð. Auk þess að kenna íþróttir í Noregi fékk Ólafur tækifæri til þess að þjálfa skíðagöngukrakka, eins og hann gerði áður fyrir Skíðafélag Akureyrar.
Á undanförnum tveimur árum, á þeim tíma sem Ólafur bjó í Noregi, hefur orðið sú breyting að nú er kennt eftir nýrri námsskrá og nýrri íþróttabraut til stúdentsprófs hefur verið ýtt úr vör. „Það er ánægjulegt að sjá hversu mikil aðsókn er að íþróttabraut. Núna í haust voru innritaðir um 50 nýnemar á brautina, sem er mjög gott. Í Noregi er íþróttabraut einnig mjög vinsæll kostur fyrir ungt fólk sem grunnur fyrir frekara nám. Íþróttabrautin hér er því farin að nálgast það sem er á hinum Norðurlöndunum. Möguleikarnir eru miklir hér til þess að þróa íþróttabrautina áfram en því er ekki að neita að aðstöðuleysi háir okkur, bæði fyrir hina almennu heilsueflingarkennslu í skólanum og einnig vaxandi íþróttabraut. Það hefur þrengt að okkur með tíma í Íþróttahöllinni og við komum kennslunni ekki lengur fyrir þar. Til þess að leysa úr brýnasta vandanum fengum við tíma á þriðjudögum í nýja íþróttahúsinu við Naustaskóla. Sá salur er ekki stór en mjög fínn fyrir einn hóp í einu, en við verðum að grípa til þess ráðs að skipta hópunum í tvennt og því höfum við ekki mikið pláss fyrir hvern hóp. Þannig að okkur er farið að sárvanta aðstöðu, ekki síst ef aðsókn á íþróttabrautina verður áfram svona góð. Best væri auðvitað að fá nýtt íþróttahús við skólann eða báða framhaldsskólana, á því er full þörf. Þreksalurinn hér niðri er mjög fínn en okkur vantar meira rými í íþróttasal, því er ekki að neita.“