Fara í efni

Aftur í skólann

Þá byrja hjólin að snúast á vorönn 2025. Í dag, mánudaginn 6. janúar, er fyrsti kennsludagur og er kennt samkvæmt stundaskrá annarinnar sem allir nemendur hafa frá sl. föstudegi haft aðgang að.

Í það heila eru rétt um níu hundruð nemendur í dagskóla á þessari önn og að auki eru 65 nemendur kvöld- og helgarnámi í matartækni (þriðja og síðasta önn), listnám í kvöldskóla (seinni önn), húsasmíði (lokaönn), rafvirkjun í kvöldskóla (fyrsta önn), heilsunudd (helgarlotur og fjarnám), múrsmíði (lokaönn) og kjötiðn (lokaönn). Þá eru til viðbótar nemendur í fjarnámi, þar á meðal meistaraskóli. Eins og venja er til eru færri nemendur á vorönn en haustönn. Brautskráningarhópurinn í desember sl. var stór en nýir nemendur koma inn í skólann núna í upphafi vorannar og verður fundur fyrir þá í stofu M-01 kl. 12:30 í dag.

Eins og jafnan áður þarf að gera breytingar á töflum  hluta nemenda. Opið er fyrir töflubreytingar í Innu til hádegis nk. föstudag, 10.janúar. Sjá nánar hér.

Vorönnin verður í stórum dráttum með hefðbundnu sniði. Engar nýjar námsbrautir verða í boði en nýir námshópar eru að fara af stað í pípulögnum, hársnyrtiiðn og kvöldskóla í rafvirkjun og þá verður á þessari önn þriðji og síðasti bekkur í matreiðslu, sem þýðir að í vor útskrifar skólinn tíu fullnuma matreiðslumenn. Við desemberútskriftina lauk námi fyrsti hópurinn í kvöldskóla í rafvirkjun sem og námshópur í pípulögnum. Þeir nemendur eru raunar þessa dagana að þreyta sveinspróf í pípulögnum. Bóklegi hluti prófsins var sl. föstudag en sá verklegi verður í þessari viku.