Aftur í VMA eftir tíu ára hlé
Leiðir nemenda að settu marki taka misjafnlega langan tíma og þær eru jafn ólíkar og nemendurnir eru margir. Skólasaga Ágústu Lóu Downs er öðruvísi en margra annarra nemenda Verkmenntaskólans á Akureyri. Hún var í VMA á árunum 2006 til 2010 og hóf aftur nám í skólanum við upphaf vorannar – eftir um áratugs hlé.
Á sínum tíma var Ágústa á bæði listnámsbraut og náttúrufræðibraut VMA og átti ekki mjög langt í land til þess að ljúka námi af báðum brautum. Sumarið 2010 ákvað hún að bregða sér út fyrir landsteinana og vinna í Sviss. Ekkert annað var í kortunum en að hún kæmi aftur til Akureyrar um haustið til þess að halda áfram í skólanum í átt að stúdentsprófinu. Það fór þó ekki svo. Útlöndin heilluðu og Ágústa hugsaði með sér að hana langaði til þess að taka sér eitt ár í frí frá námi og vera í útlöndum. Fór þá til Spánar, bjó þar í hálft ár og hitti breskan mann sem hún fór að búa með. Þau fluttu til Englands og þar hélt Ágústa áfram þar sem frá var horfið í listnáminu og lauk diplómaprófi frá listaskóla í Art and Art Design. Árið 2014 flutti Ágústa til Bournmouth á suðurströnd Englands með þriggja ára syni sínum. Hún gerði þar í tvígang atlögu að námi í kvikmyndagerð en af ýmsum ástæðum gekk það ekki upp. Á sínum tíma hafði hún tekið virkan þátt í félagslífinu í VMA, m.a. tekið þátt í uppfærslu Leikfélags VMA á We will rock you í Gryfjunni og sviðslistir hvers konar heilluðu hana. Í Bournmouth fór Ágústa að læra að verða eldgleypir sem henni finnst eftir á að hyggja sérkennilegt því hún hafi alltaf verið eldhrædd. En þjálfunin í að verða eldgleypir hjálpaði henni að ná tökum á eldhræðslunni.
Ágústa er Skagfirðingur, fædd og uppalin á Háleggsstöðum í Deildardal, skammt frá Hofsósi og þar búa foreldrar hennar. Árið 2017 kom hún til Íslands með son sinn og síðan hefur hann verið í grunnskólanum í Varmahlíð og búið hjá afa sínum og ömmu í Deildardal. Ágústa fór hins vegar aftur til Bretlands og hefur fengist við eitt og annað síðan. Áhuginn á hestum sem hún hefur haft frá blautu barnsbeini og tengslin við náttúruna og náttúruvísindi hefur aukist með tímanum. Hún hefur m.a. lært hestabogfimi í Bretlandi og hefur áhuga á að innleiða slíkt á Íslandi, hún segir stærð íslenska hestins fullkomna fyrir hestabogfimina.
Tengslin við náttúruna og dýrin hefur fært Ágústu inn á þá braut að fara að læra dýralækningar, þangað segist hún ótrauð stefna nú. Þess vegna hafi hún tekið þá ákvörðun að koma heim til Íslands og setjast aftur á skólabekk í VMA á náttúrufræðibraut og ef allt gengur upp er stefnan að ljúka stúdentsprófinu vorið 2021 – því stúdentspróf þarf hún til þess að geta innritast í nám í dýralækningum.
Ágústa kom til landsins 8. janúar sl., beint í íslenskt vetrarveður eins og það gerist verst, og lenti í erfiðleikum með að komast landleiðina norður í land. Fall er fararheill, hugsaði hún, en nú er námið komið á fullt og hún segist mjög sátt. Hún leigir íbúð á Akureyri með bróður sínum, Þóri Árna Jóelssyni, sem stundar nám í pípulögnum í VMA, og er smám saman að komast aftur inn í hlutina. Ágústa er 29 ára gömul og hún segir að sér hafi fundist eilítið skrítið í fyrstu að sitja í tímum með um tíu árum yngri krökkum en hún pæli ekkert lengur í því. Fyrst og fremst vilji hún einbeita sér að náminu enda hafi hún ánægju af því að læra. Hún bætir við að enn séu nokkrir kennarar í VMA sem kenndu sér á sínum tíma og það hafi komið henni skemmtilega á óvart að nokkrir þeirra hafi munað eftir henni eftir öll þessi ár.