Agent Fresco og Emmsjé Gauti á árshátíð VMA
Agent Fresco og Emmsjé Gauti eru stóru nöfnin á árshátíð Verkmenntaskólans á Akureyri, sem verður haldin í Íþróttahöllinni á Akureyri 11. mars nk. Veislustjóri verður Kristján Blær Sigurðsson.
Sem fyrr verður vandað til árshátíðarinnar og eru áðurnefndir tónlistarmenn til marks um það. Agent Fresco er ein af virtustu rokkhljómsveitum landsins nú um stundir en henni skaut upp á stjörnuhimininn með sigri í Músíktilraununum árið 2008. Emmsjé Gauti er einn af þekktustu röppurum landsins og hefur hann sent frá sér tvær plötur, Bara ég árið 2011 og Þey árið 2013. Auk þessara tónlistarmanna mun DJ Anonymous sjá um tónlistina á hátíðinni.
Árshátíðin verður sem fyrr segir föstudaginn 11. mars og verður húsið opnað kl. 18:30 og borðhald hefst kl. 19:00. Boðið verður upp á hlaðborð frá Bautanum.
Miðasala hefst 29. febrúar nk. í VMA og kostar miðinn 6.900 kr. Hægt verður að kaupa bara miða á ballið og kostar hann kr. 1.500. Húsið verður opnað fyrir ballgesti kl. 22:45 og er gert ráð fyrir að ballið standi til 02:00. Hægt verður að kaupa miða á ballið við hurð. Rétt er að taka fram að 10. bekkingar eru velkomnir á ballið. Sem fyrr verður árshátíð VMA vímulaus hátíð og mun ölvun ógilda aðgöngumiðann.
Hér eru nánari upplýsingar um árshátíðina.