Ágóði af nytjamarkaði VMA til Ungfrú Ragnheiðar
Í umhverfisviku í VMA fyrr á þessari önn var m.a. settur upp nytjamarkaður sem var staðsettur á bókasafni skólans. Þangað komu nemendur og starfsmenn skólans með ýmsa hluti sem þeir höfðu ekki not fyrir og buðu til sölu. Þetta var sannarlega í nafni umhverfisverndar því aukinn þungi er í umræðu um endurnýtingu hluta og að draga úr sóun. Einn af mikilvægum þáttum í því að vernda náttúruna.
Alls söfnuðust með þessum nytjamarkaði á sjötta tug þúsunda króna og var ákveðið að verja fjármununum sem söfnuðust í þágu góðs málefnis. Niðurstaðan var að þeir myndu renna til verkefnis á vegum Rauða krossins við Eyjafjörð sem nefnist Ungfrú Ragnheiður. Um er að ræða svokallað skaðaminnkunarverkefni sem felst m.a. í því að dreifa sprautum og sprautunálum til fólks sem sprautar vímuefnum í æð og veita því aðstoð með sáraumbúnað og fleira. Einnig hafa sjálfboðaliðarnir sem starfa að verkefninu fært skjólstæðingum hlý föt og mat. Ungfrú Ragnheiður er að jafnaði á ferðinni á Akureyri tvisvar í viku en auk þess sinna sjálfboðaliðar útköllum eftir þörfum.
Rauði krossinn við Eyjafjörð ýtti þessu verkefni úr vör í janúar árið 2018. Á þessu röska ári hefur verkefnið náð til um fimmtán einstaklinga og hafa heimsóknir í bíl Ungfrú Ragnheiðar verið um fjörutíu talsins. Ingibjörg Elín Halldórsdóttir, deildarstjóri Rauða krossins við Eyjafjörð, segir að reynslan af verkefninu á þessu fyrsta ári hafi sýnt fram á að mikil þörf hafi verið fyrir það. Hún segir að tveir hópstjórar haldi utan um verkefnið og skipuleggi vaktir en í það heila vinni um fimmtán sjálfboðaliðar að því. Að sjálfsögðu er fullum trúnaði haldið og geta skjólstæðingar haft samband við Ungfrú Ragnheiði í gegnum fb-síðu verkefnisins - Ungfrú Ragnheiður - eða hringt í vaktsímann 8001150. Ingibjörg segir að markmiðið sé að stuðla að öruggari sprautunotkun og koma í veg fyrir blóðborna sjúkdóma hjá fólki sem sprautar sig með vímuefnum í æð. Einnig sé markmiðið að draga úr því að sprautur séu skildar eftir á víðavangi. Ingibjörg segir að við framkvæmd verkefnisins sé unnið samkvæmt hugmyndafræði skaðaminnkunar sem snýst m.a. um að draga úr jaðarsetningu þeirra sem glíma við erfiða fíknisjúkdóma og með því móti auka aðgengi þeirra að lágmarks heilbrigðisþjónustu. Mikið sé lagt upp úr því að mæta skjólstæðingum með virðingu að leiðarljósi og reyna að auka lífsgæði þeirra sem eru jaðarsettir vegna fíknivanda.
Ungfrú Ragnheiður er systurverkefni Frú Ragnheiðar á vegum Rauða krossins í Reykjavík sem hefur verið starfrækt í um áratug og hefur það að meginmarkmiði að draga úr sýkingum og útbreiðslu lifrarbólgu C og HIV, með því að auðvelda einstaklingum aðgengi að sárameðferð, hreinum nálum og öðrum sprautubúnaði og almennri fræðslu um skaðaminnkun.