Fjölbreytt og skemmtileg lokaverkefni í uppeldisfræðiáfanga
Á haustönn kenndi Hrafnhildur S. Sigurgeirsdóttir áfanga í uppeldisfræði og voru í honum tuttugu og tveir nemendur af ýmsum brautum skólans. Þetta er skylduáfangi nemenda á félags- og hugvísindabraut og íþrótta- og lýðheilsubraut en fyrir aðra nemendur skólans er þetta valáfangi.
Nemendur fengu lausan tauminn við útfærslu á lokaverkefnum sínum í áfanganum og er óhætt að segja að útkoman hafi verið fjölbreytt og stórskemmtileg. Hrafnhildur segir að fyrir hafi verið lagt að verkefnin tengdust börnum á einhvern hátt. Nemendur hafi skilað verkefnum á ýmsu formi, t.d. í texta eða sem hljóðskrá, einnig hafi nokkrir nemendur tvinnað saman listfengi sitt og textagerð og hannað lesefni fyrir börn, bæði teiknað myndir og skrifað texta. Hér er gott dæmi um þetta og hér er annað dæmi. Og einn nemandi vann einskonar upplýsingabækling um sundferðir.
Þessar myndir tók Hilmar Friðjónsson af tveimur nemendum í uppeldisfræðiáfanganum sem báðir eru af erlendum uppruna - eiga ættir og uppruna í Póllandi. Þeir unnu skemmtilegt heimskortaverkefni sem fólst í því að nemendur af erlendum uppruna í skólanum setja flögg sinna upprunalanda á viðkomandi lönd á heimskortinu og skrifa á sínu móðurmáli Gleðilega hátíð!