Áhugaverð og fjölbreytt lokaverkefni
Í lok hverrar annar kynna útskriftarnemendur á bóknámsbrautum lokaverkefni sín. Annars vegar skila þeir verkefnunum til leiðbeinenda sinna í ritgerðarformi og hins vegar kynna þeir verkefnin. Kynningarnar voru á lokaverkefnisdegi sl. föstudag. Þrír af sextán útskriftarnemum forfölluðust en þrettán kynntu verkefni sín.
Mismunur milli kynja í fótbolta – Alex Máni Gærdob Garðarsson og Mikael Máni Sigurðsson, íþrótta- og lýðheilsubraut
Alex og Mikael skoðuðu mismunun milli kynja í knattspyrnunni frá ýmsum hliðum, út frá þjálfun, fjármagni, auglýsingum, styrktaraðilum o.fl. Þeir eru sammála um að munurinn milli kynjanna sé mjög áberandi hvað varðar aðstöðu, fjármagn, umgjörð á leikjum og markaðssetningu en þó fari ekki á milli mála að kvennaboltinn sé í umtalsverðri sókn.
Eldsmíði – Snjólaug Kristjánsdóttir, fjölgreinabraut
Snjólaug hefur brennandi áhuga á eldsmíði og hefur lengi haft, enda hafa forfeður hennar reynt fyrir sér í eldsmíði. Hún á því ekki langt að sækja áhugann á eldsmíði. Í erindi sínu fór Snjólaug yfir sögu eldsmíði á Íslandi, sem er allt frá landnámsöld. Nú er eldsmíði á Íslandi stunduð í Járnsmiðju Óðins, SÖK eldsmíði og Héðni hf. Snjólaug horfir til þess í framtíðinni að láta verða af því að læra frekar eldsmíði og stunda hana.
Lífið með endómetríósu – Dóróthea Hulda Hauksdóttir, félags- og hugvísindabraut
Dóróthea lýsti persónulegri reynslu af endómetríósu, sem á íslensku hefur verið kallað legslímuflakk, en ein af hverjum tíu konum glíma við þennan sjúkdóm, samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum. Hún lagði á það áherslu í erindi sínu að almennt væri mikill skortur á upplýsingum um sjúkdóminn en hann lýsti sér m.a. í sársauka niður í fætur og upp í mjóbak, ófrjósemi, síþreytu o.fl. Dóróthea segir að hjá þeim konum sem hafi sjúkdóminn taki hann yfir og stjórni öllu lífinu. Mjög algengt sé að konur með sjúkdóminn þrói með sér kvíða, þunglyndi og geðraskanir. Dóróthea segir að umræðan þurfi að vera meiri og opnari og fólk verði að hlusta á konur sem sjúkdómurinn kvelur, upplifun sín sé sú að sumir læknar séu ekki tilbúnir að viðurkenna sjúkdóminn.
Aðgengileg menntun – hvernig getur VMA bætt sig fyrir kynsegin nemendur sína - Júní Sigurðarbur, félags-og hugvísindabraut
Júní sagðist í upphafi kynningar sinnar vera kynsegin. Erindið fjallaði um kynsegin fólk og hinsegin samfélagið, m.a. hugtökin kynama og kynsegin.
Á vefsíðunni transisland.is er kynsegin skilgreindur svo:
Hugtak sem nær yfir einstaklinga sem skilgreina sig sem ekki eingöngu karlkyns eða kvenkyns. Kynsegin er regnhlífarhugtak en getur líka verið notað eitt og sér fyrir kynvitund einstaklings. Undir kynsegin regnhlífinni eru t.d. tvígerva, algerva, flæðigerva, eigerva og fleiri kynvitundir og -gervi. (e. Non-binary, genderqueer)
Og skilgreiningin á kynama á sömu vefsíðu er:
Orð yfir þá tilfinningu sem skapast þegar kynvitund einstaklings stangast á við líkamleg kyneinkenni. Þessari tilfinningu fylgir oft mikil vanlíðan og aftenging einstaklings við líkama sinn. Þá er kynami, eða kynáttunarvandi (úrelt), einnig sú sálfræðilega greining sem trans fólk er greint með, en sú greining er vanalega sett sem nauðsynlegur fyrirvari þess að trans fólk geti komist inn í læknisfræðilegan hluta kynleiðréttingarferlisins. (e. Gender dysphoria)
Júní sagði að fyrir marga væri erfitt að koma út sem kynsegin. Mikilvægt væri að brjóta upp ríkjandi hefðaskilgreiningu og gleyma ekki öðrum kynjum en karl- og kvenkyni. Samfélagið okkar er að þróast og það þurfa menntastofnanir að gera líka. Það er erfitt að vera fyrsta kynsegin kynslóðin á Íslandi, samfélagið gerir ekki ráð fyrir kynsegin fólki, sagði Júní og taldi að í samanburði við aðra framhaldsskóla á Norðurlandi veldu hlutfallslega fleiri hinsegin, trans og kynsegin nemendur VMA. Í mörgu gerði skólinn vel fyrir þessa nemendur en hann gæti aukið enn frekar fræðslu og stuðning því hatur sprytti upp af fáfræði fólks. Kynsegin nemendur ættu sumir erfitt uppdráttar og því væri mikilvægt að sýna þeim umburðarlyndi, stuðning og almenna virðingu. Eða eins og Júni orðaði það í kynningu sinni; fólk á skilið menntun óháð kyni.
Hjartasjúkdómar og hjartagallar – Ingunn Birna Árnadóttir, náttúrufræðibraut
Ingunn Birna sagðist hafa heillast af líf- og lífeðlisfræði og henni hafi fundist hjartað áhugavert umfjöllunarefni. Hún fjallaði vítt og breitt um hjartað og æðakerfið, blóðrásina, slagæðar, bláæðar o.fl. Í kynningu sinni sagði Ingunn Birna frá hjartasjúkdómum og hvernig þeir lýstu sér, t.d. kransæðastíflu sem án vafa er einn af algengustu hjartasjúkdómunum. Þá fjallaði Ingunn um ýmsa meðfædda hjartagalla.
Sólarorka Íslands – Elmar Ás Traustason, náttúrufræðibraut
Elmar Ás tók fyrir í sinni kynningu orkumál og beindi sjónum að sólarorkunni og hvernig unnt væri að beisla hana. Fram kom að sólarorkuna væri verið að virkja um allan heim, hlutfallslega mest í Kína, Ástralíu og Þýskalandi. Hann sagði að það sem stæði kannski mest í vegi fyrir framþróuninni væri sú staðreynd að hráefni í sólarsellurnar væri enn sem komið er mjög dýrt og uppsetningin flókin. Erfitt væri að spá fyrir um þróunina hér á landi en hafa þyrfti í huga að til lengri tíma litið væri hér um mikilvægan endurnýjanlegan orkugjafa að ræða sem gæti orðið mikilvægur liður í því að draga úr gróðurhúsaáhrifum í himinhvolfunum, þróunin með sólarorkuna væri hröð og kostnaðurinn við sólarsellurnar væri að lækka.
Munur á birtingarmynd einhverfu karla og kvenna – Indía Rebekka Jónsdóttir, fjölgreinabraut
Sálfræðiáhugi Indíu Rebekku leiddi hana inn á þá braut að fjalla um einhverfu og sérstaklega að skoða mun á einhverfu hjá körlum og konum. Indía tók fram að slík gögn væru fyrirliggjandi en ekki mætti gleyma því að einhverfa væri líka hjá öðrum kynjum, en um það væru ekki til nein gögn.
En hvað er einhverfa? Indía sagði hana vera röskun á taugaþroska, félagsleg samskipti einhverfra væru oft óhefðbunin og á þeim væru hömlur og hjá sumum væri hegðunin endurtekningasöm. Birtingamynd einhverfu væri hins vegar mjög breytileg milli einstaklinga. Indía sagði að rannsóknir bentu til að munur væri á félagslegum samskiptum einhverfra karla og kvenna á mörgum mismunandi sviðum. Stelpur hafi oft færri sérhæfð áhugamál en strákar – sem geri einhverfugreiningu þeirra flóknari. Einhverfa kvenna sagði Indía að virtist vera ósýnilegri en hjá körlum og hún væri greind mun síðar hjá stúlkum en drengjum, mögulega vegna þess að greiningakerfið sem væri stuðst við væri karllægt.
Tvær manneskjur, ein persóna – unglingar og alkohólismi – Anna Karen Einisdóttir, fjölgreinabraut Anna Karen sagði að hana hafi langað til þess að fræðast meira um alkohólisma vegna þess að hún þekki hann úr sinni fjölskyldu. Hún gerði eigindlega rannsókn - tók viðtöl við þrjá einstaklinga sem hafa átt við erfiðleika að stríða vegna áfengisneyslu. Hún sagði að það hafi vakið hennar athygli að aðeins einn þeirra hafi leitað sér aðstoðar. Eftir að hafa skoðað þessi mál telur Anna Karen að það skorti á fræðslu um áfangisneyslu meðal ungs fólks og aðstandenda og einnig hvaða leiðir séu út úr vandanum. Auka þurfi fræðslu í efstu bekkjum grunnskóla – með veggspjöldum og á samfélagsmiðlum, t.d. Instagram.
Hvers vegna er offitufaraldur? – Hjalti Snær Árnason, fjölgreinabraut
Hjalti Snær beindi í kynningu sinni sjónum að offitu í samfélaginu og nálgaðist viðfangsefnið á óvenjulegan hátt þar sem orðræðan var skoðuð út frá heimspeki, heimsviðhorfi, yfirskilvitlegum rökum og hvernig þjóðfélagsviðmið geti haft áhrif á fólk. Hann sagði að samkvæmt fyrirliggjandi rannsóknum eigi yfir 30% fullorðinna við offitu að stríða og rösklega eitt af hverjum tíu börnum sé yfir kjörþyngd.
Áhrif hreyfingar og Nootropics á frammistöðu í leikjum – Benjamin Hartvig Kristensen, náttúrufræðibraut
Benjamin skoðaði í sínu erindi hver sé undirstaða góðrar frammistöðu í leikjum – t.d. tölvuleikjum og skák. Niðustaða hans var sú að hreyfing hafi jákvæð áhrif á hugarvirkni, orkudrykkir geti hjálpað í vissum kringumstæðum, örvandi eiginleikar Nootropics (smart drugs/cognitive enhancers) geti hjálpað en líka hamlað og svefn og hvíld séu augljóslega mikilvægir þættir. Regluleg hreyfing bæti einbeitingu, minni og sköpunargáfu. Öll hreyfing sé góð en þolæfingar sérstaklega góðar því þær auki blóðflæði.
Áhrif sólar á húðina – Marín Birgisdóttir, fjölgreinabrauat
Sólin er skaðlegri en við höldum, sagði Marín í kynningu sinni, sérstaklega væru útfjólubláu geislarnir varasamir. Hún sagði sortuæxlið vera sérstaklega erfitt viðureignar en sortufrumurnar framleiði melanín, sem er litarefnið í húðinni. Þegar sortufrumurnar framleiði melanín verði húðin dekkri. Marín sagði meiri líkur á að sortuæxli greinist hjá fólki sem komið er yfir sextugt en það færist líka í vöxt hjá sóldýrkandi ungu fólki. Í byrjun séu einkenni húðkrabbameins oft óljós en greinist það nógu snemma sé horft til skurðaðgerðar. Sé krabbameinið sortuæxli þurfi að gera öryggisskurð. Marín sagði að talið væri að í 90% tilvika væri sólarljós ástæðan fyrir öldrun og skemmdum í húðinni. Sólarvörn ein og sér dugi ekki gegn geislum sólarinnar.
Saga Eurovision – Eydís Arna Karlsdóttir, fjölgreinabraut
Eydís Arna fór ekki leynt með að hún væri Júróvisjónnörd. Hún sagði alla hafa álit á Eurovision. Margir elski keppnina, aðrir hati hana. Í upphafi sagði hún að hugmyndin um að halda keppnina hafi verið sú að sameina Evrópu eftir fyrri og seinni heimsstyrjöldinni með dansi og söng. Fyrsta keppnin var haldin árið 1956 og þá kepptu sjö þjóðir. Hún var og verður eina keppnin þar sem hver þátttökuþjóð sendi tvö lög í keppnina.
Eydís sagði að Eurovision væri elsta árlega sjónvarpskeppnin í heim og hún hafi ekki bein tengsl við ESB – þess vegna hafi lönd utan sambandsins fengið að taka þátt – sbr. Ísrael og Ástralía. Margt hafi breyst í keppninni í tímans rás í takt við tækniþróun í sjónvarpi. Margir sakni hljómsveitinnar sem áður spilaði undir í Eurovision. Núna keppi um 40 þjóðir en með núverandi fyrirkomulagi sagði Eydís ekki pláss fyrir öllu fleiri en 45 þjóðir. Um 1970 hafi keppnin verið að líða undir lok en því hafi ABBA breytt með eftirminnilegum hætti árið 1974 og margir teldu þátttöku þeirra vera einn af eftirminnilegustu sjónvarpsviðburðum sögunnar. Yfir 1500 lög hafa tekið þátt í keppninni frá því að hún hófst á sjötta áratug síðastu aldar og samanlagt tekur um 72 klukkustundir að hlusta á þau!
Stofnun Þýskalands - Ísak Máni Ingvarsson, félags- og hugvísindabraut
Ísak Máni sagðist vera mikill söguáhugamaður og í leit sinni að viðfangsefni fyrir lokaverkefnið hafi hann staðnæmst við uppbyggingu þýska ríkisins og forsögu þess á nítjándu og tuttugustu öld. Sérstaklega hafi hann heillast af þætti Otto von Bismarck á 19. öld.
Ísak sagði að almennt mætti halda því fram að Þjóðverjar hafi farið illa út úr heimsstyrjöldinni fyrri og í Versalasamningnum hafi Þýskaland verið gert ábyrgt fyrir stríðinu og því gert að greiða stríðsskaðabætur. Halda mætti því fram að óánægjan með Versalasamninginn hafi verið sú púðurtunna sem sprakk að lokum með þeim afleiðingum að síðari heimsstyrjöldin skall á.