Áhugaverð skýrsla Námsmatsstofnunar um brotthvarf
Námsmatsstofnun hefur birt skýrslu um brotthvarf nemenda úr framhaldsskólum á haustönn 2014. Þar kemur m.a. fram, samkvæmt upplýsingum frá 31 framhaldsskóla, að 790 nemendur hafi hætt námi á haustönn 2014, þ.e. horfið frá námi án þess að ljúka prófum í lok annarinnar. Af þeim fóru 117 nemendur í annan skóla og teljast þeir því ekki til eiginlegs brotthvarfshóps. Sem þýðir að 673 nemendur sem hófu nám á haustönn 2014 voru hættir í skólunum áður en til annarprófa kom. Gert er ráð fyrir að um 27 þúsund nemendur hafi stundað nám á framhaldsskólastigi á haustönn.
Námsmatsstofnun segir að nemendum sem ekki skiluðu sér í próf hafi fækkað milli anna. Engu að síður sé það áhyggjuefni að nemendum sem segjast hafa hætt vegna andlegra veikinda hafi fjölgað á milli anna og við því þurfi að bregðast.
Í skýrslu Námsmatsstofnunar er tilgreint sem nemendur gefa upp sem ástæðu fyrir brotthvarfi úr skóla. Hlutfallslega flestir nemendur, 17%, tilgreina að þeir hafi farið að vinna en 12% nefna andleg veikindi. Til þess að bregðast við þessu segir í skýrslunni að mikilvægt sé að geta boðið upp á sálfræðiþjónustu innan skólanna, eins og VMA hefur gert síðustu annir, fyrstur framhaldsskóla á landinu, með góðum árangri. Raunar kemur fram að í VMA eru hlutfallslega færri sem hverfa frá námi vegna andlegra veikinda en í öðrum framhaldsskólum landsins.