Áhugaverðar kynningar HD-tæknilausna og PCC á Bakka
Í dag voru fulltrúar tveggja fyrirtækja, HD-tæknilausna og PCC á Bakka við Húsavík, með afar áhugaverðar kynnningar á starfsemi fyrirtækjanna í sal málmiðnbrautar í VMA. Kynningarnar voru mjög vel sóttar af nemendum og kennurum málmiðnbrautar og vélstjórnar.
HD-tæknilausnir er eitt af öflugstu iðn- og tækniþjónustufyrirtækjum landsins með um tvöhundruð manns í vinnu á sex starfsstöðvum; Reykjavík, Grundartanga, Akureyri, Mosfellsbæ, Kópavogi og Eskifirði. Fyrirtækið er í senn sölu- og þjónustufyrirtæki og smíðafyrirtæki. Það starfar m.a. í sjávarútvegnum, fiskeldi, matvælaframleiðslu hverskonar, virkjunum, veitum og stóriðnaði.
PCC Bakki Silicon kísilverið við Húsavík var sett á stofn árið 2012 og er það í meirihlutaeigu alþjóðlega fyrirtækisins PCC SE og einnig er hluthafi í fyrirtækinu Bakkastakkur hf., sem er sameignarfyrirtæki íslenskra lífeyrissjóða og Íslandsbanka. Starfsmenn eru um 150. Í kynningunni á fyrirtækinu var farið í vinnusluferilinn í stórum dráttum og ýmsar áskoranir í hinum daglega rekstri kísilversins. Fram kom að til þess að framleiða 32 þúsund tonn af kísilmálmi á ári þurfi um 200 þúsund tonn af hráefnum og rafskautum, þar af um 90 þúsund tonn af kvartsi og u.þ.b. 50 þúsund tonn af viði. Í verksmiðjunni eru tveir ofnar, rafmagnsþörf hvors þeirra er um 25 megavött.