Áhugaverður fyrirlestur um einhverfu
Hvað er einhverfa? Þegar svo risastórt er spurt verður fátt um svör. Einfaldlega vegna þess að einhverfa er allskonar, engir tveir einhverfir einstaklingar eru eins. Þess vegna er oft talað um að fólk sé á einhverfurófinu.
Á vef Einhverfusamtakanna er einhverfa skilgreind svo: „Hún birtist í því hvernig einstaklingur skynjar sig sjálfan og veröldina, á samskipti við aðra og myndar tengsl við fólk og umhverfi. Einhverfa er yfirleitt meðfædd og kemur fram í barnæsku. Hún er ólík hjá fólki allt eftir aldri, þroska og færni en er til staðar út ævina. Einhverfueinkenni eru þannig breytileg eftir einstaklingum, bæði hvað varðar fjölda og styrk og því er talað um einhverfuróf.
Einhverfa er ekki sjúkdómur. Greining byggist á því að meta upplifun og viðbrögð einstaklingsins við umhverfi sínu í ólíkum aðstæðum. Upplýsingar um þroska- og hegðunarsögu eru einnig mikilvægar. Við greiningu á einhverfu er stuðst við alþjóðlegar skilgreiningar. Ef einkenni ná tilteknum viðmiðum þá er talað um einhverfu eða raskanir á einhverfurófi. Aspergersheilkenni telst til einhverfurófsins. Algengt er að börn og fullorðnir á einhverfurófi séu með ýmsar meðraskanir eins og kvíða, þunglyndi, ADHD eða flogaveiki.“
Í þemavikunni liðinni viku í VMA var Margrét Bergmann Tómasdóttir kennari, sem kennir nemendum á starfs- og sérnámsbraut VMA, með fyrirlestur um einhverfu. Þar kom margt fróðlegt fram.
Margrét sýndi myndir af nokkrum heimsþekktum einstaklingum sem eiga það sameiginlegt að hafa greinst með einhvers konar einhverfu; Bill Gates stofnandi og stjórnarformaður Microsoft, Elon Musk, eðlisfræðingur, athafnamaður og forstjóri rafbílafyrirtækisins Tesla Inc og flug- og geimferðafyrirtækisins SpaceX, Susan Boyle, bresk söngkona sem sigraði eftirminnilega í söngkeppninni Britain‘s Got Talent árið 2009, Anthony Hopkins, leikarinn heimsfrægi sem hlaut Óskarsverðlaunin fyrir hlutverk sitt í Father fyrr á þessu ári, doktor Temple Grandin, heimsfrægur dýraatferlisfræðingur, eðlisfræðingurinn Albert Einstein og sænska baráttukonan Greta Thunberg.
Hjá öllu þessu heimsfræga fólki hefur einhverfan ekki verið fyrirstaða, heldur miklu fremur styrkur.
Margrét sagði að einhverfan orsakaðist af óvenjulegum taugaþroska sem hæfist á fósturstigi og ekki væri enn vitað af hverju þetta gerðist. Margar rannsóknir leiddu í ljós að einhverfa og skyldar „raskanir“ á taugaþroska væru ættgengar og samkvæmt íslenskri rannsókn væru 19% líkur á því að yngra systkini greindist með einhverfu. Samkvæmt nýjustu rannsóknum hér á landi sagði Margrét að 1,2% Íslendinga væru skilgreind á einhverfurófinu – einhverfa væri algengari hjá drengjum en stúlkum. Stór hluti barna greinist ekki fyrr en í grunnskóla og þess eru mörg dæmi að einhverfa greinist ekki hjá fólki fyrr en á fullorðinsárum.
Sem fyrr segir eru engir tveir einstaklingar á einhverfurófinu eins en engu að síður eru nokkrir samnefnarar. Nefna má myndræna hugsun, sumir einverfir skilja betur það sem er skrifað en sagt, margir eiga erfitt með setja mörk, þráhyggja getur birst í ýmsum myndum – t.d. ítrekaðar spurningar sem orsakast oftar en ekki af kvíða, málnotkunin er oft sérstök og þess eru mörg dæmi að ung fólk á einhverfurófinu hafi gott vald á ensku og kjósi að ræða sín á milli frekar á ensku en íslensku. Skynjun einhverfra getur verið ýmist ofurmikil eða lítil, óvænt snerting getur verið óþægileg fyrir einhverfa, hávaði og kliður getur farið illa í þá og þess eru dæmi að erfiðleikar með áferð eða bragð af mat geti litið út eins og matvendni eða jafnvel átröskun.
Í tengslum við þemavikuna í VMA, sem hafði yfirskriftina jafnrétti og kynheilbrigði, sagði Margrét frá því að kynsegin-trans, samkynhneigð og kynleysi væri algengara hjá einhverfum en óeinhverfum. Í hollenskri rannsókn frá 2014 hafi komið fram að 15% einverfra skilgreini sig sem trans eða utan kynjatvíhyggju samanborið við 5% hjá óeinhverfum. Margrét sagði að margar konur með Asperger heilkenni hafi sagt frá því að þær samsami sig frekar körlum en konum og kenningar væru um tengsl kynhormóna og einhverfu.