Áhugavert að heyra sjónarmið nemenda
„Ástæðan fyrir því að ég kem hingað er einfaldlega sú að ég vil að Byggiðn – Félag byggingamanna tengist betur okkar félagsfólki. Hér er nám í byggingagreinum og mér finnst mikilvægt að okkar verkalýðsfélag tengist betur nemendum í þessum greinum. Mér finnst afar mikilvægt að miðla upplýsingum til nemenda um hvað okkar félag gerir fyrir félagsmenn og hver sé ávinningurinn af félagsaðild. Eitt af fjölmörgu sem mikilvægt er að ungt fólk geri sér grein fyrir er munurinn á því að vera launþegi og verktaki,“ segir Jón Bjarni Jónsson, formaður Byggiðnar – Félags byggingamanna, sem heimsótti í gær nemendur og kennara í húsasmíði í VMA og átti samtöl við þá um ýmis mál.
Með Jóni Bjarna var Baldur Guðmundsson frá fyrirtækinu Orðavali slf., sem nú vinnur að efnisöflun í 125 ára afmælisblað Byggiðnar. Í því verður m.a. umfjöllun um byggingadeildina í VMA og í því skyni tók hann viðtöl við Helga Val Harðarson, brautarstjóra byggingadeildar, og þrjá nemendur á öðru ári í húsasmíði, sem allir vinna að því að byggja frístundahúsið norðan skólahúss VMA.
„Mér finnst mjög áhugavert að heyra sjónarmið nemenda og af hverju þeir eru að læra húsasmíði. Ástæðurnar eru auðvitað misjafnar. Sumir ætla sér að starfa sem húsasmiðir en ég heyrði líka í nemanda sem horfir á námið sitt hér sem undanfara verkfræðináms og annar er með nám í arkitektúr í huga. Þetta segir okkur að nemendur líta á þetta nám sem góðan grunn fyrir fjölmargt í framhaldinu og það finnst mér mjög ánægjulegt,“ segir Jón Bjarni.
Jón Bjarni hefur verið formaður Byggiðnar í á annað ár en áður hafði hann starfað í ýmsum störfum á hinum almenna vinnumarkaði. Í átta ár var hann í hlutastarfi hjá Meistarafélagi húsasmiða og var einnig verslunarstjóri hjá Byko. Þá stofnaði hann fyrirtækið Betri bygging sem hefur m.a. lagt áherslu á að ástandsskoða byggingar, t.d. með tilliti til raka- og mygluskemmda.