Fara í efni

Áhugavert málþing um hinsegin nemendur á landsbyggðinni

Málþingið í dag var prýðilega sótt.
Málþingið í dag var prýðilega sótt.

Hvernig byggjum við upp öruggara skólaumhverfi fyrir hinsegin ungmenni á landsbyggðinni? Hvernig getum við bætt skólaumhverfið, unnið gegn jaðarsetningu og stuðlað að meiri inngildingu hinsegin nemenda? Hvernig getum við aukið þann stuðning sem hinsegin nemendur og fjölskyldur þurfa á að halda í skólanum á landsbyggðinni?

Þetta voru þær þrjár grundvallarspurningar sem var velt upp á málþingi sem félagið Hinsegin lífsgæði efndi til í VMA í dag. Yfirskrift fundarins eða málþingsins var Að tilheyra – fitting in – lýðheilsa hinsegin ungmenna á landsbyggðinni. Málþingið var prýðilega sótt. Það var öllum opið en ekki síst kennurum og öðrum áhugasömum starfsmönnum skóla sem vilja auka þekkingu sína á lýðheilsu hinsegin ungmenna á landsbyggðinni og hvernig unnt sé að styðja og valdefla þau innan skólakerfisins. Málþingið var í beinu streymi. Það naut stuðnings mennta- og barnamálaráðuneytisins, Akureyrarbæjar, VMA, HA og NIKK – Nordisk information för kunskap om kön.

Maðurinn á bak við verkefnið Hinsegin lífsgæði er Davíð Samúelsson. Hann segist lengi hafa talið þörf á aukinni umræðu um að tryggja hinsegin ungmennum í skólum í hinum dreifðu byggðum öruggt skólaumhverfi. Að skapa umræðuvettvang með kennurum og öðrum starfsmönnum skólanna – á öllum skólastigum – sé afar mikilvægt og fundurinn á Akureyri í dag hafi markað upphafið á fundaröð sem verði um sama málefni á næstu tíu dögum. Fundirnar verða á Hellu, Egilsstöðum, Húsavík, Blönduósi, í Borgarnesi og síðasti fundurinn verður á Patreksfirði 21. október nk.

Hinar dreifðu byggðir landsins eru Davíð hugleiknar. Hann er fæddur og uppalinn í Neskaupstað en hefur einnig búið á Suðurlandi og í Reykjavík og einnig var hann um tíma í Færeyjum og þekkir því ágætlega til færeysks samfélags. Lengi starfaði hann í ferðaþjónustu, m.a. sem framkvæmdastjóri Markaðsstofu ferðamála á Suðurlandi. Hann þekkir því vel hjartaslag landsbyggðarinnar frá ýmsum hliðum.

Ég er samkynhneigður kennari og því stendur þetta mál mér nálægt. Ég rakst ekki alltaf vel í skólakerfinu, sumpart má segja að ég hafi verið jaðarsettur nemandi. Og kennararnir sem ég hafði í æsku voru ansi misjafnir og því má kannski segja að ég hafi ákveðið að læra að verða kennari til þess að geta sem kennari leiðrétt þau mistök sem sumir mínir gömlu kennarar gerðu þegar ég var í skóla. Ég fór í meistaranám í menntunarfræðum við Háskólann á Akureyri og þá kynntist ég Bergljótu Þrastardóttur lektor þar og þá fóru hjólin að snúast og það verkefni sem ég er núna að vinna að, m.a. með þeirri fundaröð sem hófst hér í VMA í dag, er rökrétt framhald kannana sem hafa verið gerðar um málefni hinsegin nemenda á landsbyggðinni. Stóra spurningin sem þarf að spyrja í öllum skólum hvað málefni hinsegin nemenda varðar er þessi; hver er staðan í skólaumhverfinu? Þessir fundir eru hugsaðir sem samráðsvettvangur þar sem kennarar tali saman, beri saman bækur sínar og deili reynslu sinni úr skólanum og skólastofunni. Hvernig getum við unnið að því í sameiningu að skapa hinsegin nemendum traust og gott skólaumhverfi þar sem öllum líður vel? Og í gjörbreyttu samfélagi á síðustu árum þar sem innflytjendum fjölgar á Íslandi þarf líka að ná til nemenda af erlendum uppruna og fræða þá um fyrir hvað við hér á Íslandi stöndum sem samfélag.
Ég vil fyrst og fremst hafa kærleik að leiðarljósi í þessu verkefni og það er mér mikils virði sú velvild og stuðningur sem ég hef fengið í þessu verkefni frá fjölmörgum. Í því sambandi vil ég nefna Bergljótu Þrastardóttur og hér í VMA vil ég sérstaklega þakka kennurunum Snorra Björnssyni og Valgerði Dögg Jónsdóttur fyrir þeirra áhuga og stuðning. Fyrst og fremst langar mig til þess að virkja og ná til skólafólks og í framhaldinu verði til ákveðinn samráðsvettvangur um þessi mál. Þetta er ekki átaksverkefni heldur langhlaup sem þarf alltaf að vera í gangi. Það er full þörf á því.

Þórgnýr Dýrfjörð frá Akureyrarbæ stýrði málþinginu í dag. Davíð Samúelsson og Jackie Ellis, ráðgjafi Hinsegin lífsgæða, gerðu grein fyrir tilurð verkefnisins og Bergljót Þrastardóttir lektor við HA sagði frá niðurstöðum eldri skólakannana og nýlegra kannana um málefni hinsegin nemenda í fjórum sveitarfélögum – Akureyrarbæ, Ísafjarðarbæ, Fjarðabyggð og á Suðurlandi – í Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslum.

Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, kynjafræðingur og sérfræðingur í málefnum hinsegin fólks, ræddi um sína persónulegu reynslu af því að vera hinsegin manneskja, fædd og alin upp á landsbyggðinni. Ugla er frá bæ í Austur-Húnavatnssýslu, skammt frá Blönduósi. Ugla fór í framhaldsskóla á Akureyri, fyrst í MA og færði sig síðan upp í VMA og steig á þeim tíma það skref að koma út úr skápnum. Uppvextinum og námstímanum í framhaldsskóla lýsti Ugla á eftirtektarverðan hátt. Ugla hefur í mörg undanfarin ár verið í fararbroddi og talað máli transfólks á Íslandi, bjó lengi í Bretlandi en býr nú aftur á Íslandi. Ugla lýsti því hversu sterkar æskuræturnar séu, þangað sé nauðsynlegt að fara reglulega til þess að hitta foreldra sína, anda að sér hreinu sveitaloftinu og njóta nálægðar við skepnurnar.

Aðrir fyrirlesar á málþinginu í dag voru Bartal Nolsoy, kennari við Miðnámsskúlin á Suðurey í Færeyjum og stjórnarformaður LGBT (lesbian, gay, bisexual, transgender/transsexual) Færeyja. Hann ræddi um hinsegin samfélagið í Færeyjum og sérstaklega stöðu hinsegin ungmenna á eyjunum. Kristina Thunberg, umsjónarkennari og Jessica Fröjd námsráðgjafi Tegelskulen Solentuna í Svíþjóð, ræddu um hvernig unnið sé með gildi/jafnrétti í sænskum skólum og loks fjallaði Stefano Paolillo, kennari og umsjónamaður hinsegin stuðningshóps European School Uccl í Brussel, um mikilvægi þess að vera með LGBT- stuðningshóp og tryggja öryggi hinsegin nemenda.

Óvænt og utan dagskrár ræddu tveir nemendur við VMA, Neó Týr Hauks (f. 2007) og Apríl Ýr Kro (f. 2005), að framsöguerindunum loknum um málefni hinsegin ungmenna. Og í lok málþingsins settist fólk á rökstóla og ræddi málin í nokkrum umræðuhópum.