Áhugavert og skemmtilegt
Stundum er sagt að eplið falli ekki langt frá eikinni og má segja að það eigi til dæmis við um Böðvar Jónsson frá Hraunbæ í Aðaldal sem stundar nám í byggingadeild VMA. Genin segja til sín, því faðir hans, Jón Gauti Böðvarsson, er smiður. Áhuginn á húsasmíðinni vaknaði því snemma hjá Böðvari og þó svo að hann hafi velt ýmsu fyrir sér með nám var vegurinn í húsasmíðanám á endanum beinn og breiður.
Böðvar segist hafa unnið við smíðarnar undanfarin ár með skólanum, bæði hafi hann unnið með föður sínum en þó meira hjá Kristjáni Snæbjörnssyni í trésmiðjunni Norðurpólnum í Reykjadal.
„Mér finnst mjög gaman í húsasmíðinni, það er skemmtilegt að sjá eitthvað eftir sig. Þetta er fjölbreytt starf – bæði úti og inni - og tekur til fjölmargra verkþátta. Það er í senn áhugavert og skemmtilegt,“ sagði Böðvar þar sem hann var ásamt skólafélögum sínum að smíða inni í 36 fermetra sumarbústað sem nemendur á öðru ári í byggingadeild VMA hafa unnið að í vetur. „Ég lýk skólanum að óbreyttu um næstu jól en þá á eftir að koma í ljós hvað ég fæ metið af þeirri vinnu sem ég hef þegar lokið hjá meistara upp í samninginn,“ segir Böðvar og gefur náminu í byggingadeild VMA góða einkunn. „Frábært nám , tækjakostur mjög góður og frábærir kennarar. Hér hef ég lært mikið og fengið innsýn í marga hluti sem eiga eftir að nýtast mér vel. Það er til dæmis virkilega gott fyrir okkur nemendur að fá að glíma við að smíða þennan sumarbústað. Þetta gefur okkur tækifæri til þess að lesa út úr teikningum , smíða sperrur, glugga, hurðir og innréttingar. Og það er líka mjög jákvætt að okkur nemendunum er ætlað að finna út bestu leiðina við að gera hlutina en kennararnir eru að sjálfsögðu til taks til að leiðbeina okkur ef við þurfum að leita í þeirra smiðju. Þetta er að mínu mati gott fyrirkomulag og lærdómsríkt fyrir okkur nemendur,“ segir Böðvar.
Á meðfylgjandi mynd er Böðvar lengst til vinstri og með honum á myndinni eru tveir skólafélagar hans í húsasmíðinni; Steinar Freyr Hafsteinsson úr Vogum á Vatnsleysuströnd og Reykvíkingurinn Karl Anton Löve.