Ákvað strax í grunnskóla að verða arkitekt
Akureyringurinn Kári Ármannsson ákvað strax í 8. eða 9. bekk grunnskóla að hann ætlaði að verða arkitekt þegar hann yrði stór. Þau áform hafa ekki breyst í tímans rás. Hann er nú á síðustu önn á listnáms- og hönnunarbraut VMA og stúdentsprófi hyggst hann ljúka í vor. Þá horfir Kári til þess að vinna í eitt ár áður en hann fer í arkitektúr í Listaháskóla Íslands. Og í framhaldinu vekur það áhuga Kára að fara í Aalto háskólann í Finnlandi. Það kemur þó allt í ljós í fyllingu tímans.
Kári fór á listnámsbraut í VMA strax að loknum grunnskóla. Ekkert annað kom til greina því hann segist alltaf hafa haft áhuga á að teikna og skapa eitthvað. Einnig taldi hann að grunnur í listnámi yrði sér gott veganesti á þeirri leið að verða arkitekt. „Það var tvímælalaust rétt ákvörðun að fara á listnámsbraut. Námið er mjög gott, aðstaðan fín og sömuleiðis kennslan. Ég er ekki í neinum vafa um að þessi grunnur mun nýtast mér vel í áframhaldandi nám í arkitektúr,“ segir Kári.
Akrílverk Kára hefur verið uppi á vegg gegnt austurinngangi VMA að undanförnu. Verkið er dökkt á allan hátt, svart/hvít mynd sem vísar til heimsstyrjaldarinnar síðari, þar má sjá þýskan skriðdreka og flugvélar herja á Frakkland. „Ég vildi með þessari mynd draga fram ljótleikann við þennan tíma í heimssögunni, máttleysi fólks gagnvart ógninni og skelfingunni. Mér fannst nauðsynlegt að hafa myndina svart/hvíta eins og um væri að ræða svart/hvíta ljósmynd frá gömlum tíma,“ segir Kári Ármannsson.