Alanna Lawley með þriðjudagsfyrirlestur
Í dag, þriðjudaginn 13. febrúar, kl. 17 heldur myndlistarkonan Alanna Lawley fyrirlestur í Ketilhúsinu sem hún nefnir Prescription Architecture – S.A.D. in Berlin, where do we go now?
Í fyrirlestrinum mun Lawley fjalla um verk sín, sköpunarferli þeirra og nálgun sína í listinni. Verk hennar fjalla um persónulega reynslu af þeim brotakenndu rýmum sem miðla upplifun af brottrekstri, tælingu og afneitun.
Alanna Lawley er fædd 1983 í Englandi en býr og starfar um þessar mundir í Berlín í Þýskalandi. Hún stundaði BA-nám við Chelsea College of Art and Design í London og hefur haldið fjölmargar sýningar, s.s. í Hollandi, Þýskalandi, Bandaríkjunum og Englandi.
Þriðjudagsfyrirlestrarnir eru samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Myndlistaskólans á Akureyri, Gilfélagsins, Verkmenntaskólans á Akureyri, Myndlistafélagsins og Háskólans á Akureyri. Þeir eru á hverjum þriðjudegi í Ketilhúsinu fram að páskum.
Aðgangur er ókeypis.