Aldursforsetinn í íshokkílandsliðinu
Birna Baldursdóttir, íþróttakennari við VMA, hefur lengi verið afreksíþróttakona í fremstu röð. Hún hefur bæði verið í landsliðum í blaki og íshokkí og hefur þar að auki stundað fimleika, júdó, badminton og knattspyrnu. Þrátt fyrir að vera 35 ára gömul, tveggja barna móðir, er hún ennþá á fullu í íþróttunum og spilaði fyrir nokkrum vikum með íshokkílandsliðinu í 2. deild heimsmeistaramótsins á Spáni. Þar vann liðið þrjá leiki en tapaði tveimur með minnsta mun.
Birna rifjar upp að hún hafi byrjað ung í íþróttum. „Ég byrjaði í fimleikum sex ára og var síðan í júdó í sjö ár. Daginn fyrir brúna beltið svokallaða fór ég á frjálsíþróttaæfingu með vinkonu minni og fótbrotnaði þar. Þar með var júdóferillinn á enda! Ég spilaði síðan fótbolta með KA, ÍBA og Magna og var í badminton í fimm ár. Einnig var ég í Skákfélaginu. Þegar ég var í níunda bekk fór ég síðan í blakið. Ég var þá í Gagganum og Stefán Jóhannsson kom þangað til að kynna blakið. Þessi kynning skilaði góðum árangri því um fimmtán manna hópur stelpna úr Gagganum fór að æfa blak, þar á meðal vinkvennahópurinn minn. Fljótlega urðum við ansi öflugar og unnum allt í yngri flokkunum. Það efldi áhugann og maður fór að leggja meiri rækt við blakið. Síðustu árin hef ég verið í öldungablakinu og þjálfaði KA-Freyjur í þrjú ár. En í vetur hef ég reyndar aftur verið að spila með stelpunum í KA-liðinu. Þannig að þrjátíu og fimm ára gömul er ég ennþá á fullu í þessu, bæði blaki og íshokkí. Ég fæ nánast daglega spurninguna um hvenær ég ætli að hætta þessu, í stað þess að fá hvatninguna!“
Þrátt fyrir langan og farsælan feril í blaki hefur Birna aldrei náð að lyfta Íslandsbikarnum í blaki í meistaraflokki. Hún hefur oft orðið Íslandsmeistari í yngri flokkunum í blaki en aldrei í meistaraflokki. Hins vegar varð hún einu sinni bikarmeistari með HK.
Árið 1999 ýttu nokkrar stelpur sem þá voru í MA úr vör kvennaliði í íshokkí. Birna lét til leiðast og pófaði og hefur síðan spilað meira og minna með Skautafélagi Akureyrar, að því undanskildu að hún spilaði um tíma með Skautafélagi Reykjavíkur þegar hún var í íþróttakennaranámi á Laugarvatni. Birna segist búa að því að hafa stundað íþróttir meira og minna allt sitt líf og því gangi henni ágætlega að halda sér í formi. „Ég æfi mjög vel og hef í raunar alltaf gert. Grunnurinn er til staðar og því gengur mér vel að halda mér í formi. Auk íþróttakennslunnar og íshokkísins er ég einkaþjálfari á Bjargi og því hef ég ágæta aðstöðu til þess að æfa. Ég reyni að lyfta reglulega 3-4 sinnum í vikum og á sumrin æfi ég Crossfit. Mér finnst mikilvægt að gera margt, ég elska fjölbreytnina í íþróttum, hún kemur í veg fyrir að maður fái leið á einni ákveðinni íþrótt. Ég tel mikilvægt að börn prófi sem flestar íþróttir þangað til að þau ákveði sjálf hvaða íþrótt þau vilji æfa,“ segir Birna.
Kvennalandsliðið í íshokkí stóð sig ljómandi vel á heimsmeistaramótinu (B) á Spáni dagana 29. febrúar til 6. mars sl. og var Birna aldursforseti liðsins. Tuttugu ár eru á milli hennar og tveggja nýliða í liðinu sem Birna segir að hafi staðið sig frábærlega á mótinu. Kjarni liðsins – 12 af 20 stelpum – eru í Skautafélagi Akureyrar og því þekkjast þær vel. Birna segir að samheldnin í liðinu, sem hampaði bronsverðlaununum, hafi verið mikil og mórallinn frábær og það hafi skilað sér í þessum ljómandi fína árangri. Liðið vann Tyrkland, Nýja-Sjáland og Mexíkó en tapaði með minnsta mun fyrir Ástralíu og Spáni. Hér má sjá myndir af stelpunum á Spáni.
„Það hafa margir spurt mig þeirrar spurningar hvort ég sé ekki hætt. En svarið er nei, ég er ekki hætt. Ég ætla að taka eitt íshokkíár til viðbótar. Ég fór reyndar úr axlarlið í síðasta leiknum á mótinu gegn Ástralíu en ég jafna mig á því. Ég styrki mig bara vel og verð klár í slaginn í haust,“ segir Birna og bætir við að hlutverk sitt í íshokkíinu hafi eilítið verið að breytast. Auk þess að leggja sitt af mörkum á ísnum sé hún ekki síður að hvetja hinar stelpurnar bæði innan vallar sem utan og miðla af sinni reynslu.