Allir eiga sér tvífara
Marian Rivera Hreinsdóttir fæddist í Hondúras en flutti þaðan árið 2003 – þá sjö ára gömul – til Íslands. Nú býr hún á Grenivík með fjölskyldu sinni.
Marian rifjar upp að þegar hún kom til landsins fyrir fjórtán árum hafi íslenskan verið henni erfið og til að byrja með hafi hún notið aðstoðar talkennara til þess að ná tökum á framburði margra erfiðra orða. Síðan hafi tungumálið komið smám saman eftir að hún byrjaði skólagöngu í grunnskólanum á Grenivík, betur hafi gengið með framburðinn og orðaforðinn aukist.
En svo var það spurningin hvað við tæki eftir grunnskólann? Marian upplýsir að hún hafi sem barn átt sér draum um að verða geimfari og sjá þannig himinhvelfinguna í návígi. En hún var fljót að komast að því að það væri fjarlægur draumur því til þess að verða geimfari þyrfti afburða kunnáttu í stærðfræði og hún væri ekki hennar sterkasta grein. Því varð niðurstaðan að taka allt aðra stefnu. Hún staðnæmdist við listnámið í VMA, enda hafi hún lengi haft ánægju af því að teikna og þessi gen séu til staðar í móðurætt hennar í Honduras. Marian segir að hún hafi haft mikla ánægju af náminu og sérstaklega finnist henni gaman að mála – bæði akríl- og vatnslitamyndir. Þessa akrílmynd, sem hún kallar Tvíbura, gerði Marian í námskeiði hjá Björgu Eiríksdóttur sl. haust. Í myndinni, sem er þessa dagana á veggnum gegnt austurinngangi VMA, vísar hún til þess að í öllum tilfellum sé það svo að hver og einn einstaklingur eigi sér tvífara einhvers staðar í heiminum.
Að loknu náminu í VMA – sem Marian stefnir á að ljúka í desember nk. – segir hún óvíst hvað taki við. Þó sé ekki ósennilegt að hún taki sér góðan tíma í að ferðast um heiminn. Síðar segist hún hafa hug á því að mennta sig frekar í einhverju sem tengist listnáminu, margt komi til greina, t.d. vöruhönnun.