Allir velkomnir á háskóladaginn í VMA nk. fimmtudag
Hinn árlegi háskóladagur verður haldinn í VMA nk. fimmtudag, 12, mars, kl. 11 til 13.30 þar sem allir háskólar landsins, sjö talsins, kynna námsframboð sitt og gefa ítarlegar upplýsingar um skólana. Stóri háskóladagurinn var haldinn í Reykjavík 28. febrúar og nú eru fulltrúar skólanna á yfirreið um landið og fylgja þeirri kynningu eftir. Á morgun, þriðjudag, verður kynning á Höfn, á miðvikudaginn á Egilsstöðum og á fimmtudaginn er röðin komin að Akureyri. Í næstu viku verða síðan sambærilegar kynningar á Ísafirði, í Grundarfirði, Borgarnesi og á Selfossi.
Anna Dröfn Ágústsdóttir, verkefnastjóri háskóladagsins, segir að háskóladagurinn í Reykjavík, sem nú var haldinn í ellefta skipti, hafi tekist gríðarlega vel. „Án þess að við getum fullyrt það, þá mætti segja mér að það hafi verið metaðsókn í ár. Við munum fylgja þessu eftir út um allt land, meðal annars í VMA. Ég veit að skólarnir munu leggja mikið í kynningar sínar og því ættu nemendur í VMA og aðrir þeir sem eru að velta fyrir sér háskólanámi að geta fengið allar þær upplýsingar sem þeir eru að sækjast eftir,“ segir Anna Dröfn. Hún vill undirstrika að háskóladagurinn í VMA er öllum Akureyringum og nærsveitamönnum opinn og því er um að gera að fjölmenna í VMA á fimmtudaginn og afla sér upplýsinga.
Á fésbókarsíðu háskóladagsins er unnt að sækja frekari upplýsingar og einnig á vefsíðu háskóladagsins. Á fésbókarsíðunni er meðal annars að finna nokkur myndbönd þar sem útskrifaðir nemendur úr háskólanámi segja frá lífi sínu og starfi. Myndböndin voru gerð í aðdraganda háskóladagsins 28. febrúar sl. en eru að sjálfsögðu í fullu gildi.