Alma Rún í nýju starfi mannauðsstjóra í VMA
Alma Rún Ólafsdóttir hefur verið ráðin í nýtt starf mannauðsstjóra við VMA. Hún starfaði áður að mannauðsmálum hjá Akureyrarbæ.
Alma Rún er fædd og uppalin á Svalbarðseyri. Hún lauk stúdentsprófi frá MA árið 2003 og hóf þá um haustið BA-nám í sálfræði við Háskólann á Akureyri. Að því loknu starfaði hún hjá Akureyrarbæ.
„Ég leit á það sem ákveðinn biðleik því hugur minn stóð til þess að fara í klíníska sálfræði og starfa sem sálfræðingur. Til þess þurfti ég hins vegar að flytja suður, því ekki var boðið upp á klíníska sálfræði í fjarnámi. Ég var hins vegar ekki tilbúin til þess. Hjá Akureyrarbæ var ég verkefnisstjóri hjá starfsmannaþjónustunni til að byrja með og síðan mannauðsráðgjafi hjá mannauðsdeild bæjarins eftir stjórnsýslubreytingar og fann mig vel í því starfi. Ég ákvað þá að auka þekkingu mína í mannauðsmálunum og lauk fyrst námi í markþjálfun hjá Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar og í framhaldinu tók ég í fjarnámi við Háskólann á Bifröst, til hliðar við vinnu hjá Akureyrarbæ, meistaranám í stjórnun með áherslu á mannauðsmál. Því námi lauk ég árið 2019,“ segir Alma Rún.
En af hverju ákvað hún að sækja um nýtt starf mannauðsstjóra við VMA? „Ég hafði starfað hjá Akureyrarbæ í tólf ár og líkaði það vel enda góður vinnustaður og yndislegt samstarfsfólk. Engu að síður klæjaði mig í puttana að prófa eitthvað nýtt og takast á við nýjar áskoranir. Þetta nýja starf mannauðsstjóra í VMA fannst mér áhugavert að takast á við, enda gefst mér tækifæri til þess að móta það og það finnst mér spennandi. VMA er stór og fjölbreyttur vinnustaður og þessa fyrstu daga og vikur er ég að læra, kynnast fólkinu og átta mig á því hvernig skólinn er byggður upp. Bara að rata um skólahúsið er töluverð áskorun,“ segir Alma Rún og bætir við að starf mannauðsstjóra snúist fyrst og fremst um að hlúa að velferð starfsfólks, að því líði vel í sínu daglega starfi. „Starf mannauðsstjóra er mjög vítt en í grunninn er leiðarstef okkar sem störfum að mannauðsmálum að hlúa að velferð starfsfólksins. Í því felst m.a. starfsþróun, móttaka og leiðsögn nýrra starfsmanna, starfsþróunarviðtöl, endurmenntun og almenn starfsánægja,“ segir Alma Rún Ólafsdóttir.