Pönnukökur á Alþjóðlega geðheilbrigðisdeginum
Í dag, 10. október, er Alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn og er yfirskrift hans „Lifað með geðklofa“. Í tilefni dagsins verður boðið upp á pönnukökur í löngu frímínútum og Björn Thors – sem túlkar hina skemmtilegu persónu Kenneth Mána - mætir og spjallar við nemendur og starfsfólk og kynnir leiksýningu sína.
Pétur Guðjónsson, viðburðastjóri VMA, segir að hugmyndin um að efna til pönnukölubaksturs í tilefni dagsins hafi átt sér skamman aðdraganda en það hafi þó ekki komið í veg fyrir að unnt væri að hrinda hugmyndinni í framkvæmd. Matvælabrautin leggur sín lóð á vogarskálarnar og sömuleiðis hópur sjálfboðaliða úr hópi nemenda og starfsfólks sem taka daginn snemma og byrja núna í morgunsárið að baka pönnukökur þannig að þær verði tilbúnar þegar löngu frímínúturnar skella á.
Sem fyrr segir mætir síðan Björn Thors – Kenneth Máni – og ræðir við viðstadda en sem kunnugt er er samnefnd leiksýning núna á fjölunum syðra og þann 17. október nk. verður Kenneth Máni síðan á fjölum Menningarhússins Hofs hér á Akureyri. Einnig munu nokkrir nemendur sýna "parkour"-atriði.
Þá er þess að geta að uppákoman verður tekin upp og sýnd á sjónvarpsstöðinni N4 undir yfirskriftinni "góðverk vikunnar".