Alþjóðlegur friðardagur í dag - ýmsar uppákomur í VMA
Í dag, 21. september, er Alþjóðlegur dagur friðar - International Day of Peace - og af því tilefni verða í dag uppákomur af ýmsum toga um allan heim, m.a. í VMA. Sýndar verða kvikmyndir með friðarboðskap, haldinn verður áhugaverður fyrirlestur o.fl.
Alþjóðlegur dagur friðar, þann 21. september, hefur að frumkvæði Sameinuðu þjóðanna verið haldinn síðan 1982 og er sannarlega ekki vanþörf á að minna heimsbyggðina aftur og aftur á boðskapinn um frið. Alvarleg stríðsátök hafa lengi verið í t.d. Nígeríu, Sómalíu, Afghanistan, Írak, Úkraínu og síðast en ekki síst Sýrlandi. Sjaldan hefur hinn vestræni heimur verið minntur jafn áþreifanlega á hörmungar stríðsátaka og einmitt núna þegar milljónir manna eru á vergangi og á degi hverjum verður heimsbyggðin vitni að þjáningum flóttafólks í gegnum fjölmiðla.
Kennarar í félagsfræðiáfanganum FÉL 473, Valgerður Dögg Jónsdóttir og Þorsteinn Kruger, höfðu frumkvæði að því að minnast þessa alþjóðlega friðardags í VMA. Uppákomur dagsins eru hluti af námi nemendanna í áðurnefndum félagsfræðiáfanga en Valgerður Dögg undirstrikar að allir viðburðir dagsins séu einnig opnir öllum þeim nemendum sem ekki eru í kennslustundum á þeim tíma sem viðburðir dagsins verða og sömuleiðis fyrir þá nemendur sem kennarar kunna að bjóða að taka þátt.
Núna í morgunsárið, kl. 08:15, hefst sýning í M 01 á kvikmyndinni Gandhi, sem var frumsýnd árið 1982 og fjallar um ævi og störf frelsishetju Indverja, Mohandas Karamchand Gandhis.
Strax að sýningu á Gandhi lokinni, kl. 09:55, verður Guðmundur Heiðar Frímannsson, heimspekingur og prófessor við Háskólann á Akureyri, með fyrirlestur í M 01.
Í Gryfjunni verða einnig ýmsar uppákomur sem tengjast friði – m.a. í höndum nemenda í löngu frímínútunum.
Klukkan 11:45 verður í B 13 sýndur Kastlósþáttur frá 14. september sl. um flóttamenn frá Sýrlandi.
Eftir hádegi, nánar tiltekið kl. 15, verður í M 01 sýnd kvikmyndin Mandela: Long Walk to Freedom, sem fjallar um frelsishetju Suður-Afríku, Nelson Mandela.