Ánægja og eftirvænting við upphaf skólaárs
Enn eitt skólaárið er hafið og alltaf er jafn gaman að sjá nemendur og starfsfólk fylla hvern krók og kima í húsakynnum VMA. Gleði, kátína og eftirvænting en eilítill kvíði og óvissa hjá sumum. Tilfinningarnar eru alls konar. Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari VMA segir alltaf jafn ánægjulegt að taka á móti nemendum í upphafi skólaárs og sjá hið daglega skólastarf færast í fastar skorður.
„Það er mjög skemmtilegt að geta byrjað skólastarfið á eðlilegan hátt, án allra sóttvarnaaðgerða. Svo var raunar einnig við upphaf síðasta skólaárs en engu að síður má segja að mögulegar sóttvarnaaðgerðir hafi þá verið yfirvofandi. Í raun má segja að ég þurfi að horfa til baka til haustsins 2018 til upphafs á venjulegu skólaári því haustið 2019 fór ég í námsleyfi. Á þessum tíma hefur fjölmargt breyst í samfélaginu, t.d. hefur hröð þróun og breytingar í upplýsingatækni alltaf meiri og meiri áhrif á daglegt líf. Samfélagslegar breytingar kalla á breytingar í skólastarfi, hvort sem er meðvitað eða ómeðvitað. Að mennta nemendur inn í framtíðina er töluvert öðru vísi en árið 2018, hvað þá árið 2015 eða 2010. Með öðrum orðum; framtíðin sem blasir við ungu fólki í dag er af öðrum toga en var fyrir fimm árum síðan. Á heimsvísu er áberandi meiri rasismi, aukin öfgahyggja og loftlagsbreytingar hafa í auknum mæli tekið sinn toll úti í heimi. Allt er þetta meira í umræðunni en fyrir fimm árum og við verðum að taka þessa hluti inn í nám nemenda þannig að þeir eigi auðveldar með að taka upplýstar ákvarðanir um lífið og tilveruna. Yfirskrift grunnáfanga sem nemendur taka hefur kannski ekki tekið miklum breytingum en í takt við breytt samfélag og breytta heimsmynd tekur innihald þeirra breytingum. Nám á hverjum tíma verður alltaf að taka mið af breyttu samfélagi. Á fundum með starfsmönnum skólans í upphafi skólaárs í fyrra og aftur í ár hef ég lagt á það áherslu að við verðum að tileinka okkur í enn ríkari mæli heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna til þess að búa nemendur sem best undir þá framtíð sem bíður þeirra.“
Heimur samfélagsmiðlanna
Sigríður Huld segir að stóra breytingin hjá nemendum sé heimur samfélagsmiðlanna. Margir nemendur kunni að greina rétt frá röngu í óþrjótandi upplýsingastreymi og áreiti samfélagsmiðlanna en öðrum gangi það miður vel. Vert sé að hafa í huga að kórónuveirutíminn hafi sett mark sitt á líf ungs fólks og margir hafi einangrast í heimi tölva og snjalltækja. Vonandi gangi vel að endurheimta þetta unga fólk aftur í raunheima.
Í Danmörku hefur verið greint frá því í fréttum núna í upphafi nýs skólaárs að dæmi séu um að meiri hömlur hafi verið lagðar við notkun snjallsíma í kennslustundum í nokkrum framhaldsskólum þar í landi en áður. Sigríður Huld segist ekki sjá fyrir sér bann við notkun snjalltækja í kennslustundum í VMA. „Hins vegar tel ég að okkar hlutverk sé að kenna nemendum að vinna með þessi tæki, hvort sem er að nota þau í náminu eða að tileinka sér að leggja þau frá sér í kennslustundum og einbeita sér að náminu og þeim upplýsingum og verkefnum sem nemendum er ætlað að vinna með. Ég get vel skilið að þessi tæki séu bönnuð í grunnskólum en annað á við um framhaldsskólann. Ég spyr mig hvernig við gætum framfylgt slíku banni í VMA og jafnframt spyr ég mig hvort tíma okkar sé ekki betur varið í annað en að fylgjast með símanotkun nemenda. En það er engu að síður alveg skýrt að skólinn ætlast til þess að nemendur virði skólareglur VMA sem kveða á um hömlur á síma- og tölvunotkun nemenda í kennslustundum.“
Aldrei meira námsframboð
Sigríður Huld segir ljóst að námsframboð í VMA núna á haustönn sé það mesta í tæplega fjörutíu ára sögu skólans. Á undanförnum árum hafi nemendum á stúdentsprófsbrautum fækkað en þessari fækkun hafi verið mætt með m.a. nýrri námsbraut í heilsunuddi og einnig sé núna boðið upp á nám í iðngreinum sem ekki sé alltaf í boði, t.d. pípulögnum og múrsmíði, og til hliðar við dagskóla sé nú bæði boðið upp á kvöldskóla í rafvirkjun og húsasmíði og bifvélavirkjunin fari aftur af stað á þessari önn.
VMA – MA
Undir lok síðasta skólaárs ýtti Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra úr vör vinnu við mögulega samvinnu eða sameiningu framhaldsskóla. Verkefnið tók til átta framhaldsskóla, þar á meðal Akureyrarskólanna VMA og MA. Skipaður var starfshópur sem var falið að fara ofan í saumana á þessum málum og skila af sér tillögum. Sigríður Huld segir að á þessu stigi sé fátt nýtt að frétta af þessari vinnu en þess sé vænst að skýrsla starfshópsins liggi fyrir á næstu dögum. Hún segist gera ráð fyrir að innihald skýrslunnar verði stefnumarkandi um næstu skref í málinu af hálfu ráðherra.
Horfum bjartsýn til nýs skólaárs
Sigríður Huld segir að alltaf ríki eftirvænting að taka á móti nýjum nemendum og endurnýja kynnin við þá eldri. Þó svo að upphaf hverrar annar sé í nokkuð föstum skorðum séu engin tvö skólaár eins því hverju skólaári fylgi alltaf skemmtileg óvissa. „Við upphaf skólaárs horfum við bjartsýn fram á veginn með það að leiðarljósi að skólastarfið í vetur verði öflugt og gott. Skólinn stendur á tímamótum á næsta ári þegar fjörutíu ár verða liðin frá stofnun hans. Við móttöku nýnema í liðinni viku lagði ég sem fyrr áherslu á ástundun og virðingu nemenda fyrir sjálfum sér, námi sínu, öðrum nemendum og starfsfólki skólans. Ég lagði einnig ríka áherslu á þátttöku þeirra í fjölbreyttu félagslífi í skólanum sem er einn af lykilþáttum í öflugu skólastarfi,“ segir Sigríður Huld Jónsdóttir.