Ánægjuleg heimsókn í Vélfag
„Þetta var mjög ánægjuleg og fróðleg heimsókn og virkilega áhugavert að sjá hvernig fyrirtækið nýtir tölvustýrðar vélar í framleiðslu sína,“ segir Hörður Óskarsson, brautarstjóri málmiðnbrautar VMA, en á dögunum sóttu kennarar brautarinnar heim fyrirtækið Vélfag og kynntu sér fjölbreytta starfsemi þess.
Vélfag var stofnað í Ólafsfirði árið 1995 og voru stofnendur Bjarmi Arnfjörð Sigurgarðarson og Ólöfu Ýr Lárusdóttir. Fyrstu árin var fyrirtækið í þjónustu við sjávarútvegsfyrirtæki en síðan færðist starfsemin í þróun og framleiðslu fiskvinnsluvéla og það er hryggjarstykkið í starfseminni í dag. Vélfag er í dag með starfsemi í Ólafsfirði og á Akureyri og má lýsa fyrirtækinu sem framsæknu nýsköpunarfyrirtæki sem hefur byggt á öflugu frumkvöðlastarfi. Starfsemin hefur vaxið og dafnað og á stuttum tíma hefur Vélfag haslað sér völl á hér og erlendis á krefjandi markaði fyrir fisktæknivélar.
Reynir Eiríksson er framkvæmdastjóri Vélfags og tók hann á móti fulltrúum VMA og kynnti þeim starfsemina. Í gegnum tíðina hefur Reynir stutt dyggilega við starf málmiðnbrautar, m.a. sem framkvæmdastjóri Ferro Zink á Akureyri.
Hörður Óskarsson vill koma á framfæri bestu þökkum fyrir góðar móttökur. Hann segir það hafa verið sérlega ánægjulegt að hitta gamla nemendur á málmiðnbraut VMA í áhugaverðum störfum sínum hjá Vélfagi.