Ánægjuleg heimsókn starfsbrautar í Safnasafnið
Í liðinni viku heimsóttu nokkrir nemendur og starfsmenn starfsbrautar VMA Safnasafnið á Svalbarðsströnd og voru þessar myndir teknar við það tækifæri.
Safnasafnið er í reisulegu húsi á Svalbarðsströnd, rétt við þjóðveginn fyrir ofan Svalbarðseyri. Elsti hluti húss Safnasafnsins var á árum áður samkomuhús hreppsbúa. Hjónin Margrét Jónsdóttir leirlistakona á Akureyri og Guðmundur Árnason bjuggu um tíma í húsinu og seldu það núverandi eigendum, Níelsi Hafstein og Magnhildi Sigurðardóttur, sem hafa rekið Safnasafnið í aldarfjórðung. Níels og Magnhildur byggðu í áföngum mynduglega við safnið og þar er nú vítt til veggja og safnmunum einkar haganlega fyrir komið.
Safnasafnið er eins og nafn þess gefur til kynna safn sem hýsir mörg minni söfn þar sem alþýðulistin er í öndvegi. Safnið nýtur mikillar sérstöðu hér á landi vegna áherslu sinnar á alþýðulist og er fjölbreytnin í fyrirrúmi.
Heimsókn nemenda og starfsfólks starfsbrautar í safnið í síðustu viku var afar ánægjuleg. Eigendurnir og húsráðendur, Níels og Magnhildur, tóku vel á móti gestunum og sögðu frá safninu á lifandi og skemmtilegan hátt.
Starfsbraut VMA þakkar fyrir góðar móttökur og ánægjulega heimsókn.