Fara í efni

Anna Kristjana kom, sá og sigraði!

Verðlaunahafar og dómnefndarfólk.
Verðlaunahafar og dómnefndarfólk.

„Þetta er vissulega hvetjandi og það er jafnframt mikill heiður að eiga verk í tveimur efstu sætunum,“ segir Anna Kristjana Helgadóttir, nemandi í VMA, en hún er Ungskáld Akureyrar 2018.

Fyrr í haust var auglýst eftir hugverkum í ritlistarsamkeppnina Ungskáld 2018 sem er fyrir ungt fólk á aldrinum 16 til 25 ára á starfssvæði Eyþings – í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum.

Þátttakan í ár var mjög góð, alls bárust 82 verk í keppnina sem er um helmings aukning frá fyrra ári. Að verkefninu Ungskáld, sem er hið eina sinnar tegundar á landinu, standa Akureyrarstofa, VMA, MA, Ungmennahúsið í Rósenborg og Amtsbókasafnið. Verkefnið naut stuðnings Sóknaráætlunar Norðurlands eystra og Akureyrarbæjar.

Anna Kristjana sendi fimm hugverk í samkeppnina og uppskar heldur betur vel, ljóðið hennar „Án titils“ fékk fyrstu verðlaun og smásagan „Tækifærin“ fékk önnur verðlaun. Í þriðja sæti í keppninni var smásagan „Dagur á veginum“ eftir Söndru Marín Kristínardóttur.

Í dómnefnd voru Hrönn Björgvinsdóttir, bókavörður á Amtsbókasafninu, Kristín Árnadóttir, fyrrverandi íslenskukennari við VMA og Þórarinn Torfason, bókmenntafræðingur og kennari við Oddeyrarskóla.

Á meðfylgjandi mynd, sem er fengin af vefnum akureyri.is, eru frá vinstri: Kristín Árnadóttir, Hrönn Björgvinsdóttir, Tinna Sif Kristínardóttir, sem tók við viðurkenningu fyrir hönd systur sinnar, Söndru Maríu, Anna Kristjana Helgadóttir og Þórarinn Torfason.

„Ég hef skrifað mér til skemmtunar, ljóð og stuttar sögur, frá því í sjötta bekk í barnaskóla. Ég fæ hugmyndir út frá einhverju sem ég sé eða upplifi,“ segir Anna Kristjana og bætir við að hún hafi mikla ánægju af því að lesa skáldsögur af ýmsum toga og spennusögur. Hún segist halda mikið upp á ljóð Andra Snæs Magnasonar.

Anna Kristjana er í grunndeild rafiðna og segist stefna að henni lokinni á nám í rafeindavirkjun. Hún segir að það sé „brjálað að gera“, því auk námsins er hún öflug í félagslífinu í VMA, er ritari stjórnar Þórdunu og stefnir að því að koma að tæknimálum í söngleiknum Bugsy Malone sem Leikfélag VMA setur á svið í Hofi í febrúar nk.

Eftirfarandi eru ljóð og smásaga Önnu Kristjönu sem unnu til verðlauna í Ungskáld 2018:

 

Án titils (fyrstu verðlaun)

Að skrifa er öruggara en að tala
Því penninn stamar ekki eins og röddin gerir
Orð festast í hálsi en ekki á fingurgómum
Ég get ekki hrasað um hvít línustrikuð blöð
Eins og ég myndi gera með orðum
Ég þarf ekki að mana mig upp í að skrifa
Þegar ég sit ein í myrkinu
En þegar ég stend ein, umkringd fólki
Þá sjá mig allir, það sjá allir hvað ég geri
Hvernig ég stend, hvernig ég tala, hvernig ég er
Það sjá mig allir
Ég skrifa
Af því að skrift er einföld og örugg
Og enginn getur sagt til um
Hvort ég gráti eða hlægi
Þegar ég skrifa þessi orð

 

Tækifærin(önnur verðlaun)

Það var bankað á hurðina. Ég leit upp þaðan sem ég sat og starði á hurðina, velti því fyrir mér hver í ósköpunum gæti verið að banka á þessum tíma sólarhrings. Ég lagði frá mér bókina og stóð upp, gekk hægum skrefum í átt að hurðinni og leit í gegnum skráargatið en fyrir utan hurðina var ekkert nema myrkur. Tunglsljósið skein inn um gluggann á ganginum og varpaði drungalegri birtu um allt svæðið. Ég lagði við hlustir en heyrði ekkert, frammi var grafarþögn. Ég teygði mig í hurðarhúninn en á þeirri andrá var bankað aftur. Ég bakkaði frá hurðinni og fékk mér sæti aftur, tók upp bókina og hóf lesturinn á ný. Því tækifærin banka ekki tvisvar.