Fara í efni

Annað frístundahús rís

Nýja frístundahúsið er um 20 fermetrar að gólffleti.
Nýja frístundahúsið er um 20 fermetrar að gólffleti.

Það er engin lognmolla í byggingadeildinni í VMA, frekar en fyrri daginn. Þann 3. september sl. reistu nemendur á öðru ári í húsasmíði og kennarar þeirra útveggi frístundahúss og síðan hefur kappsamlega verið unnið að því að byggja húsið. Ekki verður annað sagt en verkið hafi rokið áfram og líklega hefur þetta árlega verkefni sjaldan eða aldrei verið komið lengra á þessum tíma skólaársins. Ástæðan er sú að námshópurinn á öðru ári í húsasmíði er óvenju stór að þessu sinni, eða ríflega þrjátíu nemendur. Og til þess að þeir yrðu ekki verklausir og hefðu nóg að gera í frístundahúsabyggingum til vors var fyrir jól lagður grunnur að byggingu annars frístundahúss og í síðustu viku var komið að því að reisa húsið norðan við hús byggingadeildar. Það verða því tvö hús í byggingu af hálfu nemenda byggingadeildar VMA til vors.

Þetta nýja hús er allt miklu einfaldara en húsið sem var reist í byrjun september. Gólfflötur þess er um tuttugu fermetrar en engu að síður er hátt til lofts og vítt til veggja.

Sem fyrr voru útveggirnir forsmíðaðir inni, sömuleiðis gólfið og þakið meira að segja líka. Það var því sannarlega mikið og nákvæmt púsluspil að hífa þetta allt á sinn stað, hreinlega eins og raða saman legókubbum. Og auðvitað passaði þetta allt saman, eins og lagt var upp með.

Það verður gaman að fylgjast með framgangi nýja frístundahússins á næstu vikum.