Fara í efni

ApprEUnance í Sligo

Kennararnir þrír á leið á brimbretti í Sligo.
Kennararnir þrír á leið á brimbretti í Sligo.

Í vetur hefur verið óvenju mikið um að vera í alls konar Evrópuverkefnum sem VMA tekur þátt í, sem má rekja til kóvidfaraldursins. Sum verkefnin voru komin í gang fyrir kóvid en önnur áttu að hefjast meðan á faraldrinum stóð en hafa þess í stað farið í fullan gang í vetur. Eitt þessara verkefna ber yfirskriftina ApprEUnance og er Erasmus + verkefni. Yfirskrift þess vísar til „apprenticeship and alternance“ eða verknáms/námssamninga til skiptis á vinnustað og í skóla.

Síðastliðið haust var haldinn fundur í þessu verkefni í VMA og í mars sl. tóku kennararnir Dagbjört Lauritz Agnarsdóttir, Daníel Freyr Jónsson og Hrafnhildur Sólrún Sigurgeirsdóttir þátt í vinnustofu í verkefninu í Sligo, bæ á norðvesturströnd Írlands. Aðrir þátttakendur í þessari vinnustofu komu frá Portúgal, Slóveníu, Írlandi, Belgíu og Frakklandi. Verkefninu er stýrt af MFR „Maison Familial Rurale“ í Frakklandi sem er einskonar yfirstjórn og samhæfingarstofnun fyrir víðtækt net lítilla verknámsskóla í dreifbýlinu þar í landi sem reknir eru í samstarfi við fjölskyldur á hverju svæði fyrir sig.

Í samantekt Dagbjartar, Daníels og Hrafnhildar um vinnustofuna í Sligo segir:

„Í heimsókninni til Írlands voru heimsóttir nokkrir skólar og stofnanir með sérhæfingu í verknámi sem er unnið til skiptis á vinnustað og í skóla samkvæmt áhugaverðu kerfi Íra. Nemendur fá tækifæri til náms á öllum stigum iðnnámsins sem þeir hyggjast gera að sínu framtíðarstarfi og vinna úti á vinnumarkaði á sama tíma. Í MSLEB Training Center er í boði að fara á námskeið og í verknám á þeim fjölmörgu námslínum sem í boði eru. Þar má m.a. nefna rafvirkjun, bifvélavirkjun, húsasmíði, kjötiðn, framreiðslu, háriðn o.m.fl. en námið er í nánu samstarfi við þá vinnustaði sem uppfylla kröfur menntamiðstöðvarinnar. Fjármagn til fræðslu og verknáms er mun meira á Írlandi en á Íslandi. Eins hefur stofnunin unnið að því síðustu 5 ár í samstarfi við fyrirtæki og sveitarfélög á svæðinu að endurskrifa námskrána á „mannamáli“ sem allir skilja - nemendur, foreldrar, vinnustaðir og menntastofnanir.
A.m.k. 50% af náminu þarf að fara fram á vinnustað en mikil kennsla, bæði verkleg og bókleg, fer fram í menntamiðstöðinni. Einhver hluti námsins á sumum námslínum getur farið fram í fjarnámi. Allir nemendur eru á verknámssamningi og fá laun skv. honum sem eru greidd bæði af sveitarfélagi eða ríki og vinnustað á meðan á námi stendur. Launin eru frá 20.000 evrum á ári en geta verið hærri. Nemendur geta sótt um verknámssamning frá 16 ára aldri en það er ekkert efra aldurstakmark. Sligo College of Further Education er stór skóli sem hefur margt að bjóða nemendum sínum. Þar er úrval námsleiða í verknámi ansi fjölbreytt, m.a. er hægt að fara í nám í hundasnyrtingu, matreiðslu, kennslu ungra barna, læra að aðstoða dýralækna, snyrtifræði og nudd, tryggingasölu og svo mætti lengi telja. Þetta nám fer einnig fram í samstarfi við vinnustaði.
Skólinn tekur mikinn þátt í Erasmus+ verkefnum og gaman var að sjá að veggi skólans prýddu veggspjöld með myndum og upplýsingum um heimsóknir nemenda í skóla víða um Evrópu. Námsframboð skólans er mjög sýnilegt þar sem í loftinu á göngum skólans hanga hvarvetna spjöld sem sýna þær námsleiðir sem eru í boði. Á Achill eyju er útivistarskólinn Achill Outdoor Education Centre. Þar eru allir aldurshópar velkomnir og boðið upp á fjölda námskeiða sem eru sniðin að öllum aldri. Til að mynda er sérstakt námskeið í boði fyrir aldraða og er því ætlað að koma í veg fyrir einangrun og einmanaleika þeirra. Í útivistarskólanum læra nemendur að fást við krefjandi verkefni úti í náttúrunni en einnig felst starfsemin að miklu leyti í að mennta kennara og þjálfara í að fræða ungdóminn um undraveröldina sem bíður utan skólastofunnar. Þarna var farið með allan hópinn á brimbretti í ísköldu Norður-Atlantshafinu um miðjan vetur við mikinn fögnuð næstum því allra þátttakenda.
Síðasti skólinn sem við heimsóttum var Atlantic Technological University Sligo. Það er ansi stór skóli með um 10.000 nemendur sem býður upp á fjölbreytt verklegt nám á ýmsum sviðum. Við skoðuðum rafdeild skólans, byggingadeildina og deild þar sem kennd er verkfærasmíði „Tool Making“ en í því felst að búa til tæki og tól sem notuð eru í nákvæmnisvinnu í hvers konar framleiðslu úr málmi, plasti og fleiri efnum. Þar er til dæmis verkfæri sem hefur búið til 17.000.000.000 flipa sem notaðir eru til að opna áldósir.
Þeir kennarar sem tóku þátt í þessari ferð sneru svo sannarlega til baka fróðari um uppbyggingu verknáms á Írlandi og með ýmsar hugmyndir í farteskinu sem vonandi munu nýtast í áframhaldandi þróun verknáms og umgjörðar þess hér á landi.
Fram undan í verkefninu ApprEUnance eru lokafundir þar sem vinna á úr könnunum og viðtölum sem tekin hafa verið bæði við nemendur og kennara í verknámi í öllum þessum löndum, taka saman upplýsingar um þær mismunandi leiðir sem löndin fara í nálgun sinni á námið og leggja einhvers konar mat á hvaða aðferðir, aðstaða og umgjörð er líklegust til að skila góðum, glöðum og gefandi verknámsnemum í framtíðinni.“