Arkitektúr í þriðjudagsfyrirlestri
Í dag, þriðjudaginn 7. mars kl. 17:00-17:40 heldur Einar Sigþórsson, arkitekt, þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu á Akureyri undir yfirskriftinni Hvað, hvernig og hvers vegna? Aðgangur er ókeypis.
Í fyrirlestrinum fjallar Einar um hvers vegna hann valdi arkitektúr sem námsgrein og hvernig námi hans í Arkitektskolen í Árósum í Danmörku var háttað. Einar ræðir um hvernig námið og skólinn mótuðu hann og hvernig námsárin hafa haft áhrif á það sem hann hefur tekið sér fyrir hendur síðan hann lauk BA og MS námi í arkitektur árið 2017.
Einar Sigþórsson er fæddur og uppalinn á Akureyri og er stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri.
Frá því Einar lauk námi í arkitektúr árið 2017 hefur hann m.a. hannað húsgögn og unnið við skipulagningu á nýjum hverfum í Danmörku.
Þriðjudagsfyrirlestrarnir eru samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, VMA, Gilfélagsins, MA og Myndlistarfélagsins á Akureyri.