Arnar Ómarsson með þriðjudagsfyrirlestur
03.02.2015
Myndlistarmaðurinn Arnar Ómarsson heldur fyrirlestur í dag, þriðjudaginn 3. febrúar, kl. 17 í Ketilhúsinu sem hann nefnir Skáldið og staðreyndin.
Í fyrirlestrinum mun Arnar ræða fyrri verk og hugmyndir sem byggja grunninn að næstu sýningu hans, MSSS, sem opnar í vestursal Listasafnsins á Akureyri laugardaginn 28. febrúar næstkomandi. Viðfangsefni sýningarinnar er hlutverk skáldskapar í mótun staðreynda með áherslu á tækni og geimrannsóknir.
Fyrirlesturinn er í röð svokallaðra þriðjudagsfyrirlestra sem efnt er til á þriðjudagseftirmiðdögum í Ketilhúsinu á vegum listnámsbrautar VMA, Listasafnsins á Akureyri, Háskólans á Akureyri og Myndlistaskólans á Akureyri.
Enginn aðgangseyrir er á fyrirlesturinn og eru allir velkomnir.