Ársfundur SAMNOR - samstarfsvettvangur framhaldsskólanna á NA-landi
Samráðsfundur um norðlensk skólamál
Ársfundur framhaldskólanna á Norðausturlandi, SAMNOR, var helgaður samfellu skólastiga. Til fundarins var boðið fulltrúum sveitarfélaga á svæðinu, stjórnendum grunnskóla og símenntunarmiðstöðva. Inngangserindi voru haldin um efnið frá sjónarhóli grunnskóla, framhaldsskóla, háskóla og símenntunarmiðstöðva. Síðan var pallborð með þátttöku fyrirlesara. Fundurinn tókst mjög vel og voru þátttakendur sammála um að á þessu svæði væru einstakar aðstæður til nýbreytni í samstarfi skólastiga.
Rætt var um sveigjanleg skólaskil grunn- og framhaldsskóla, að nemendur gætu hafið nám í einstökum greinum fyrir útskrift úr grunnskóla eða lokið útskrift fyrir lok 10. bekkjar. Einnig var rætt um námsmat og hvaða upplýsingar fælust í þeim. Á mörkum háskóla og framhaldsskóla var rætt um innihald stúdentsprófsins og þann mikla sveigjanleika sem er í framhaldsskólanum til undirbúnings undir háskólanám eftir gildistöku nýrrar námskrár og velt fyrir sér hvaða kröfur það leggur á háskóla um að skilgreina þarfir um nám fyrir háskóla. Rætt var um samstarf framhaldsskóla og símenntunarmiðstöðva, raunfærnimat, aðlögun brotthvarfsnemenda að námi og sértækt nám í tengslum við atvinnumarkaðinn.
Rædd voru samstarfsverkefni sem þegar eru í gangi á milli skóla og skólastiga og mikill áhugi kom fram um frekari samvinnu um breytingar og þróun í samstarfi á svæðinu. Umræðan bar það með sér að hér var verið að hefja samtal sem mun áreiðanlega hafa áhrif á þróun skólamála á svæðinu.
Framhaldskólarnir í SAMNOR eru: Framhaldskólinn á Húsavík, Framhaldskólinn á Laugum, Menntaskólinn á Akureyri, Menntaskólinn á Tröllaskaga og Verkmenntaskólinn á Akureyri.