Árshátíð VMA 2025
Það hefur verið nóg um að vera hjá stjórn Þórdunu að skipuleggja viðburði fyrir nemendur. Í gær stóð nemendafélagið fyrir bílaratleik þar sem hátt í 50 nemendur tóku þátt. Ratleikurinn gekk vonum framar og lauk með pizzaveislu svo allir fóru sáttir heim.
Miðasalan fyrir Árshátíð VMA, sem fer fram föstudaginn 21. mars 2025 í Íþróttahöllinni á Akureyri, er hafin. Árshátíðin er einn stærsti viðburður skólans ár hvert og býður upp á glæsilega dagskrá.
Húsið opnar kl. 18:00 og hefst dagskrá kl. 19:00, og mun kvöldið verða fullt af þrusustemmingu og ógleymanlegri upplifun. Auddi og Steindi munu veislustýra kvöldinu og starta ballinu með krafti.
Eftir það taka við tónlistaratriði frá eftirfarandi listamönnum sem halda uppi trylltri stemningu á ballinu:
Séra Bjössi, Aron Can, Erpur & Blaffi og DJ Gugga.
Miðaverð á árshátíðina er 9.500 krónur og innifalið í miðaverðinu er dýrindis matur frá Bautanum, skemmtiatriði og ball.
Árshátíð VMA er mikilvægur viðburður í félagslífi skólans og hefur fest sig í sessi sem einn af hápunktum skólaársins. Stjórn Þórdunu hvetur nemendur til að tryggja sér miða tímanlega og mæta stemmd til að njóta kvöldsins til fulls.