Árshátíðin nálgast
Árshátíð VMA nálgast óðum. Hún verður haldin hátíðleg í Íþróttahöllinni á Akureyri annan föstudag, 7. febrúar. Hátíðin er nú óðum að taka á sig mynd og verður í engu til sparað til þess að gera hana sem glæsilegasta. Meðal skemmtikrafta verður Steinar Up og Páll Óskar og Úlfur úlfur sjá um að draga alla út á dansgólfið.
Íþróttahöllin verður opnuð fyrir gesti klukkan 19:00 og dagskrá hefst stundvíslega klukkan 20:00. Borinn verður fram matur á
hlaðborð frá Bautanum og meðan á borðhaldi stendur verður fjölbreytt skemmtidagskrá þar sem m.a. hinn ungi og bráðefnilegi
tónlistarmaður Steinar Up (Steinar Baldursson) mun skemmta gestum. Einnig verður að sjálfsögðu hið
árlega kennaragrín og ýmis önnur skemmtiatriði í höndum nemenda VMA, að sögn Hólmfríðar Lilju Birgisdóttur, formanns
Þórdunu. Veislustjórar verða þeir Svali og Svavar (Sigvaldi Kaldalóns og Svavar Örn Svavarsson),
þáttastjórnendur á útvarpsstöðinni K100,5.
Hólmfríður Lilja segir að þema árshátíðarinnar verði „Great Gatsby“
– þ.e. leitast verður við að nálgast klæðnað eins og hann birtist í þessari þekktu mynd. Annars sagði Hólmfríður
Lilja að óskað væri eftir snyrtilegum klæðnaði gesta.
Eins og vera ber á 30 ára afmæli VMA leggur sá vaski hópur sem vinnur að undirbúningi árshátíðarinnar áherslu á að gera hana sem glæsilegasta á allan hátt. „Við höfum unnið að undirbúningi hátíðarinnar frá því í haust og þessa dagana kemst að sjálfsögðu ekkert annað að,“ segir Hólmfríður og bætir við að 10. bekkingum sé velkomið að mæta á ballið og fá þannig tilfinningu fyrir VMA. Húsið verður opnað fyrir ballið kl. 23:00 og verður aðgöngumiðasala við innganginn.
Sem fyrr segir leika Páll Óskar og hljómsveitin Úlfur úlfur fyrir dansi. Páll Óskar mætti til leiks á árshátíðina í fyrra og gerði stormandi lukku. Ef að líkum lætur verður hann ekki síður á dansskónum í ár.
Ölvun ógildir aðgöngumiða að hátíðinni.
Forsala aðgöngumiða á árshátíðina hefst í þessari viku á nemendaskrifstofu Þórdunu í VMA. Miðar verða
síðan seldir alla næstu viku fram að árshátíðinni annan föstudag.
Miðaverð eru eftirfarandi:
Matur og ball = 6.000 kr. fyrir meðlimi Þórdunu og 7.000 kr. fyrir aðra.
Ball = 2.000 kr.