Átján atriði í Söngkeppni VMA í Hofi
Söngkeppni VMA er á ári hverju einn af stærstu viðburðum í félagslífi nemenda í Verkmenntaskólanum á Akureyri. Keppnin hefur jafnan verið haldin í Gryfjunni í VMA en í ár færist hún í Menningarhúsið Hof og verður haldin þar á fimmtudaginn í næstu viku, 12. febrúar, kl. 20:00. Flutt verða átján söngatriði í flutningi 23ja keppenda. Hljómsveit undir stjórn Tómasar Sævarssonar leikur undir.
Dómnefnd keppninnar í ár skipar tónlistarfólkið Lára Sóley Jóhannsdóttir, Rúnar Eff og Magni Ásgeirsson.
Eyþór Ingi Gunnlaugsson verður kynnir en hann sigraði Söngkeppni VMA 2007 og Söngkeppni framhaldsskólanna sama ár. Óhikað má segja að þessi árangur Eyþórs Inga hafi komið honum á kortið og síðan vitum við um framhaldið, Eyþór Ingi er einfaldlega einn af albestu rokksöngvurum landsins.
Í gegnum árin hafa nemendur alltaf lagt metnað sinn í Söngkeppni VMA og svo verður einnig nú. Árið 2011 sigraði Valdís Eiríksdóttir Söngkeppni VMA, árið 2012 Jóhann Freyr Óðinsson, árið 2013 Bjarkey Sif Sveinsdóttir og á síðasta ári sigruðu þau Snæþór Ingi Jósepsson og Rebekka Ýr Sigurþórsdóttir með lagi sem þau settu saman úr hinu þekkta danska Eurovisonlagi Rollo & King „Never Ever Let You Go“ og „You‘re the One that I Want“, sem Olivia Newton John og John Travolta gerðu ódauðlegt í kvikmyndinni Grease.
Sigurvegari úr Söngkeppni VMA verður fulltrúi skólans í Söngkeppni framhaldsskólanna sem fer fram í vor.
Allir eru velkomnir að fylgjast með keppninni í Menningarhúsinu Hofi fimmtudagskvöldið 12. febrúar. Miðasala á keppnina er í Menningarhúsinu Hofi, í síma 450 1000 og á menningarhus.is.