AtNorth færði VMA stýritöflu að gjöf
Árni Björnsson, stöðvarstjóri gagnaversfyrirtækisins atNorth á Akureyri, kom ásamt sínu fólki færandi hendi í VMA sl. föstudag og færði skólanum/rafiðnbraut að gjöf fullkomna stýritöflu sem m.a. mun nýtast sérstaklega vel í kennslu nemenda á fimmtu önn í rafvirkjun í áfanganum Rökrásir. Gjöfinni veittu viðtöku Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari VMA, Haukur Eiríksson brautarstjóri rafiðnbrautar skólans og kennarar við rafiðnbrautina.
Sambærilegar stýritöflur notar atNorth í gagnaveri sínu við Rangárvelli ofan Akureyrar og því er um að ræða nýjasta búnað af þessum toga. Andvirði hans eru nokkrar milljónir króna. Haukur Eiríksson og Sigríður Huld Jónsdóttir sögðu þegar þau veittu gjöfinni viðtöku og þökkuðu fyrir hana að slíkur hugur atvinnulífsins í garð skólans væri honum afar mikils virði og hér væri um gagnkvæman ávinning skóla og atvinnulífs að ræða því mikilvægt væri að nemendur hefðu aðgang í námi sínu að nýjum og fullkomnum búnaði sem bíður þeirra síðan þegar út á vinnustaðina er komið að námi loknu.
Það segir sína sögu um mikilvægi góðrar tæknimenntunar fyrir fyrirtæki eins og atNorth að allir þeir fimm starfsmenn sem komu fyrir hönd fyrirtækisins og afhentu skólanum gjöfina hafa á einn eða annan hátt sótt alla eða hluta menntunar sinnar til VMA - Bergljót Gunnarsdóttir rafeindavirki, Húni Hlér Einarsson rafvirki, Marías Bjarni Viggósson raf- og rafeindavirki, Árni Björnsson rekstrarstjóri (rafeindavirki, kerfisfræðingur og verkefnastjóri) og Gunnlaugur G. Færseth vélstjóri.
Árni Björnsson rekstrarstjóri segir að fyrirtækið líti svo á að mikilvægt sé að styðja við tæknimenntun á svæðinu:
Við viljum og okkur finnst að við höfum ákveðnar skyldur gagnvart nærumhverfi okkar, t.d. skólum og íþróttastarfsemi í bænum. Við vildum gefa Verkmenntaskólanum sambærilegan búnað til kennslu og upplýsingamiðlunar til nemenda og verið er að nota út í atvinnulífinu. Oft er það svo tækniþróunin er svo hröð að kennslubúnaður úreldist fljótt en hér er um að ræða búnað sem við erum að nota í dag. Vissulega skiptir það okkur miklu máli að hér á svæðinu sé í boði góð tæknimenntun og með þessari gjöf viljum við leggja okkar lóð á vogarskálarnar í þeim efnum.
Gagnaver atNorth ofan Akureyrar hefur verið í hröðum vexti á undanförnum árum. Sjö starfsmenn starfa hjá atNorth á Akureyri og tvö gagnavershús eru í rekstri. Þá eru tvö hús til viðbótar í byggingu og þegar þau verða einnig komin í rekstur verða starfsmenn að óbreyttu sem næst tuttugu. Orkunotkun fyrir fjögur hús verður allt að tuttugu megavött.
Auk Íslands er atNorth með starfsstöðvar í Finnlandi, Danmörku og Svíþjóð. Árni segir enga tilviljun að gagnaver séu staðsett á norðurhveli jarðar og Akureyri sé góður staður fyrir þessa starfsemi. Loftslagið sé hagstætt, stærð samfélagsins á Akureyri sé mjög heppileg og gæði verktaka- og þjónustufyrirtækja á svæðinu séu mjög mikil. Allt skipti þetta miklu máli þegar gagnaveri sé fundinn staður. Einnig megi ekki gleyma því að nálægð við Akureyrarflugvöll skipti miklu máli því þar með eigi erlendir viðskiptavinir auðveldara með að koma til Akureyrar.