Átti ekki von á því að vinna
Á Íslandsmóti iðn- og verkgreina í Laugardalshöllinni á dögunum varð Sindri Skúlason, nemandi í VMA, Íslandsmeistari í rafeindavirkjun og Jóhann Ernir Franklín, einnig úr VMA, varð í öðru sæti.
Sindri er Akureyringur í húð og hár. Lundarskóli var hans grunnskóli og hann sá fyrir sér að fara í hreint bóknám í framhaldsskóla að honum loknum. En þær áætlanir breyttust því þrír félagar hans voru ákveðnir í að fara í grunndeild rafiðna í VMA og Sindri ákvað að gera það líka. Hann kunni strax vel við námið en sá þó ekki fyrir sér að starfa sem rafvirki í framtíðinni. Því ákvað hann að velja rafeindavirkjunina að lokinni grunndeild og sér ekki eftir því. Námið sé áhugavert og skemmtilegt og snerti ýmsa þætti sem hann hafi sérstaklega áhuga á, t.d. forritun.
Nám í rafeindavirkjun tekur þrjár annir og mun Sindri ljúka því og útskrifast í desember nk. Hvað þá tekur við er óráðið en hann segist hafa áhuga á að mennta sig frekar og horfir þá sérstaklega til einhvers konar tölvunarfræði, m.a. forritunar.
En víkur þá sögunni í Laugardalshöllina fyrir viku síðan þegar Sindri var einbeittur á verkefni sitt í Íslandsmóti iðn- og verkgreina í rafeindavirkjun. Hann segir að keppnin hafi verið þríþætt, í fyrsta lagi lóðun, í öðru lagi bilanaleit og í þriðja lagi forritun. Hann segir að út af fyrir sig hafi verið erfitt að undirbúa sig vel fyrir keppnina að öðru leyti en því að hann hafi æft sig bærilega vel í að lóða og því hafi hann verið vel undirbúinn á því sviði. Einnig hafi hann verið nokkuð vel undirbúinn í forrituninni. En í bilanaleitinni hafi hann, eins og aðrir, rennt blint í sjóinn og ekki vitað við hverju mætti búast.
Fyrir fram segir Sindri að hann hafi ekki búist við að vinna keppnina, í mesta lagi hafi hann gert sér vonir um að ná þriðja sæti og því hafi það komið ánægjulega á óvart þegar hann náði hæsta samanlagða stigafjölda í keppninni.