Atvinnumaður í Helsingborg
Daníel Hafsteinsson brautskráðist sem stúdent af íþrótta- og lýðheilsubraut VMA á síðasta ári. Síðustu mánuðina hefur hann einbeitt sér að því að spila fótbolta sem hefur borið þann ávöxt að hann er nú orðinn atvinnumaður í knattspyrnu hjá einu af stóru félögunum í Svíþjóð, Helsingborgs IF.
Daníel hefur spilað fótbolta með KA frá barnæsku og eins og gjarnan er með unga og áhugasama knattspyrnukrakka dreymdi hann um að fara í atvinnumennsku einn góðan veðurdag. Það var þó ekki annað en draumur. Takmark hans var þó öðru fremur að vinna sér sæti í meistaraflokksliði KA, sem spilar sem kunnugt er í Pepsídeildinni, og spila þar eins vel og mögulegt væri. Síðustu tvö ár hefur Daníel verið í hópi bestu leikmanna KA, þó ungur sé að árum, fæddur 1999, og hann neitar því ekki að gott gengi hans með KA-liðinu hafi ýtt undir þann gamla draum að fara í atvinnumennsku. Og það rættist sem sagt í sumar þegar hann gerði þriggja og hálfs árs samning við sænska stórliðið Helsingborgs IF í Helsingborg.
Og núna nokkrum vikum síðar er Daníel að byrja að fóta sig í nýju umhverfi og hann telur engan vafa á því að hann hafi valið rétt að fara til þessa sænska stórklúbbs
„Ég hef verið í tæpa tvo mánuði í Helsingborg. Munurinn á Íslandi og Svíþjóð er töluverður og ég hef smám saman verið að fóta mig betur í nýju umhverfi. Þetta byrjaði reyndar svolítið skringilega því þjálfarinn, Henrik Larsson, hætti um það leyti sem ég kom út. Aðstoðarþjálfarinn tók tímabundið við en nú er búið að ráða nýjan þjálfara, Olof Mellberg,“ segir Daníel sem hafði ekki náð að hitta Mellberg áður en hann kom til landsins vegna landsleikja U-21 landsliðsins við Luxemborg og Armeníu fyrr í þessari viku. Daníel fór aftur út til Svíþjóðar í gær og væntanlega hittir hann nýja þjálfarann á æfingu í dag.
Olof Mellberg er tvímælalaust einn af þekktari knattspyrnumönnum Svía. Hann var lengi fyrirliði sænska landsliðsins og með því spilaði hann tvívegis í lokakeppni HM og fjórum sinnum á EM. Hann spilað m.a. með Aston Villa á Englandi, Juventus á Ítalíu og Olympiacos á Grikklandi.
„Ég er smám að komast inn í þetta og nú er verkefnið að vinna mér sæti í hópnum og komast í liðið. Ég hef þegar spilað einn bikarleik og komið inn á í þremur leikjum. Ég horfi til framtíðar í þessum efnum. Þessari leiktíð lýkur í byrjun nóvember og síðan taka við einhverjar æfingar í nóvember, í desember verður frí en æfingarnar hefjast aftur í janúar og deildin hefst aftur í apríl. Liðinu hefur ekki gengið nógu vel að undanförnu, það er núna í tíunda sæti af sextán í Allsvenskan, en mér finnst mér hafa gengið bærilega í þeim leikjum sem ég komið inn á,“ segir Daníel.
Stærsti munurinn á knattspyrnunni á Íslandi og í Svíþjóð segir Daníel að sé fyrst og fremst meiri æfingar í Svíþjóð, enda um að ræða atvinnumennsku. Til þessa hefur hann búið einn ytra en nú hefur unnusta Daníels flutt út til Helsingborgar.
„Ég kom til liðsins á miðju tímabili og því er æfingaálagið ekki eins mikið og á undirbúningstímabilinu. Ég mæti klukkan 08:15 í morgunmat í klúbbhúsinu og síðan gerum við einhverjar æfingar í líkamsræktinni áður en hin eiginlega fótboltaæfing hefst kl. 10:15. Um klukkan tólf er æfingin búin en stundum er líka æft í ræktinni eftir hádegi."
Auk þess að hafa spilað fjölda meistaraflokksleikja með KA hefur Daníel spilað með yngri landsliðum Íslands og var sem fyrr segir í landsliðshópi U-21 landsliðsins sem spilaði tvo leiki á dögunum í Reykjavík, fyrri leikinn gegn Luxemborg vann liðið 3-0 og seinni leikinn við Armeníu vann það 6-1. Daníel spilaði allan fyrri leikinn en var ónotaður varamaður í seinni leiknum. „Í leiknum við Armeníu breytti þjálfarinn um taktík og þá fengu ónotaðir varamenn úr fyrri leiknum að spila. Auðvitað vill maður alltaf byrja leiki en ég er bara sáttur við þann spilatíma sem ég fékk í þessum leikjum. Næsti leikur U-21 liðsins verður gegn Svíum 12. október og hann verður einmitt spilaður í Helsinborg á heimavelli Helsingborgs IF,“ segir Daníel.
„Auðvitað eru það töluverð viðbrigði að hafa fótboltann að atvinnu. Það tekur smá tíma að átta sig á því í hvaða stöðu maður er. Líklega hef ég átt þennan draum síðan ég var átta til tíu ára gamall. En hugsun mín var fyrst og fremst sú að verða betri og komast í KA-liðið. En síðustu tvö árin hef ég stefnt að þessu. Helsingborgs IF er risaklúbbur og ég er mjög ánægður með þá ákvörðun að hafa valið hann. Þetta er tvímælalaust einn af stærri klúbbunum í Svíþjóð og íslenskum knattspyrnumönnum sem hafa verið hér hefur vegnað vel,“ segir Daníel Hafsteinsson.