Fara í efni

Austfirðingar í bifvélavirkjun

Austfirðingarnir Ásgrímur Bogi og Íris Björk.
Austfirðingarnir Ásgrímur Bogi og Íris Björk.
Bifvélavirkjun samanstendur af fimm anna námi í skóla og 48 vikna starfsþjálfun. Allir þeir nemendur sem fara í bifvélavirkjun hafa áður þurft að fara í gegnum grunndeild málm- og véltæknigreina, en síðan velja nemendur um að fara í vélstjórn, bifvélavirkjun eða málmgreinar. Nú stunda 19 nemendur nám á fjórðu og fimmtu önn í bifvélavirkjun í VMA.

Bifvélavirkjun samanstendur af fimm anna námi í skóla og 48 vikna starfsþjálfun. Allir þeir nemendur sem fara í bifvélavirkjun hafa áður þurft að fara í gegnum grunndeild málm- og véltæknigreina, en síðan velja nemendur um að fara í vélstjórn, bifvélavirkjun eða málmgreinar. Nú stunda 19 nemendur nám á fjórðu og fimmtu önn í bifvélavirkjun í VMA og er aðstaða til bók- og verklegrar kennslu í Fjölnisgötu 6A.

Til fjölda ára var bifvélavirkjun ekki kennd í VMA, en henni var aftur ýtt úr vör árið 2007. Reynslan var sú að margir af þeim sem þurftu að fara suður yfir heiðar til þess að sækja sér þessa menntun komu ekki heim aftur til þess að vinna í faginu. Endurnýjun í faginu var því ekki nægilega mikil hér nyrðra.

Bragi Finnbogason, brautarstjóri bíliðngreina í VMA, orðar það svo að í bifvélavirkjuninni sé þreifað á mörgum þáttum, sem að gagni koma fyrir þá sem starfa í faginu.  Í nokkrum áföngum er kennt í lotum, sem þýðir að nemendur einbeita sér að ákveðnum þætti í náminu í eina til tvær vikur, en síðan tekur sá næsti við. Þessa dagana eru nemendur á fimmtu önn að kynna sér allt sem lýtur að rafeindahlutanum í bílnum, sem með aukinni tölvutækni er orðinn flóknari en áður var og jafnframt æ mikilvægara að kunna góð skil á. Og nemendur á fjórðu önn fræðast þessa dagana um flókinn heim bremsukerfa.

Eins og í mörgum öðrum iðngreinum er það ekki svo að allir þeir sem læra bifvélavirkjun leggi hana fyrir sig. Bragi segir þess dæmi að nemendur haldi áfram að bifvélavirkjuninni lokinni og fari áfram í til dæmis stálsmíði eða vélstjórn. Allt nýtist þetta nám mjög vel, hvort sem nemendur ákveða að fara á samning í bifvélavirkjuninni og starfa í faginu eða halda áfram námi í einhverjum öðrum tengdum greinum. Bragi segir að VMA leitist við að vera á þessu sviði eins og öðrum sviðum í nánum tengslum við atvinnulífið og komið hafi fram að rík þörf sé fyrir menntað fólk á Akureyri í bifreiðasmíði og bílamálun, enda hafi endurnýjun í þessum sérhæfðu greinum verið lítil. „Þetta erum við nú með í skoðun,“ segir Bragi.

Því verður ekki á móti mælt að bifvélavirkjun hefur verið karlavígi og vissulega eru piltar í yfirgnæfandi meirihluta í bifvélavirkjuninni í VMA. Af nítján nemendum á 4. og 5. önn eru aðeins tvær stúlkur, ein á fjórðu önn og önnur á fimmtu önn.

„Þetta er algjör snilld og ég hvet kynsystur mínar til þess að drífa sig í þetta nám,“ segir Íris Björk Óttarsdóttir frá Höfn í Hornafirði. Hún tók fljótt stefnuna á verknám, enda sá hún sig ekki fyrir sér sitjandi í stól við skrifborð, eins og hún orðar það. Sótti um VMA, en fékk ekki inngöngu. Fór þá í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi og var þar í bóknámi í hálft annað ár. Komst síðan inn í VMA og innritaðist í grunndeild málmiðnaðar. Ákvað í framhaldinu að fara í bifvélavirkjunina.  „Vinir mínir sögðu þegar þeir heyrðu að ég ætlaði í bifvélavirkjann að það val kæmi ekki á óvart, þetta væri námkvæmlega ég. Það er nokkuð til í því. Ég kann best við mig í svona ati. Ég ætla alveg örugglega að halda áfram á þessari braut, þetta á vel við mig og mér líkar námið mjög vel. Það væri gaman að stofna „gelluverkstæði“ í framtíðinni,“ sagði Íris Björk.

Ásgeir Bogi Arngrímsson, sömuleiðis Austfirðingur, frá Borgarfirði eystri, er einnig á fjórðu önn í bifvélavirkjun. Hann fór til að byrja með suður yfir heiðar og tók þar bókleg grunnfög í MH og þrjár annir í bifvélavirkjuninni í Borgarholtsskóla. „Ég fór síðan austur og vann um tíma hjá Rafey á Egilsstöðum. Kærastan mín neitaði að fara með mér suður í höfuðborgina og úr varð að ég kom hingað í VMA. Ég segi eins og Íris Björk að það á ekki við mig að sitja við skrifborð og því lá beint við að fara í verknám. Ég hefði út af fyrir sig getað farið í húsasmíði eða eitthvert annað fag, en þetta varð niðurstaðan og ég sé ekki eftir því. Eins og staðan er núna stefni ég klárlega að því að halda áfram á þessari braut,“ segir Ásgeir Bogi.

Þess má geta að í næstu viku fara nemendur á fjórðu önn suður yfir heiðar þar sem þeir kynna sér rafeindahlutann í bílum hjá Iðuni fræðslusetri. Þennan áfanga þarf að sækja suður vegna þess að þar er til staðar nauðsynlegur tækjabúnaður til kennslunnar. 

oskarthor@vma.is