Ávarp brautskráningarnema
Góðan daginn kæru útskriftarnemar, starfsfólk, foreldrar og aðrir gestir. Sara Dögg heiti ég og fékk þann heiður að fá að flytja ræðu fyrir hönd útskriftarnema jólin 2023.
Mig langar að byrja á því að bjóða ykkur öll hjartanlega velkomin og þakka ykkur kærlega fyrir að koma og fagna með okkur á þessum hátíðlega degi.
Fyrr í mánuðinum var haldinn fundur með útskriftarnemum þar sem farið var yfir ýmis atriði og þar á meðal var þessi ræða nefnd. Eitthvað var nú verið að gjóa að mér augunum og pota í mig til að bjóða mig fram í þetta. Ég hugsaði neeeeiii, það væri nú óþarfi að fara að bæta einhverri blessaðri ræðu við allt jóla- og útskriftarstressið.
Svo liðu dagarnir og ekkert fréttist þannig að ég hugsaði FRÁBÆRT það hefur einhver annar tekið þetta að sér! Þangað til fyrir tveimur dögum þegar ég fékk skilaboð um að þessi ræða væri alfarið minn hausverkur og ég skyldi nú fara að drífa mig í að skrifa eitthvað niður.
Ég ætlaði mér ekki alveg að eiga frumraun mína í ræðuhöldum fyrir framan fullan sal í Hofi fyrir hönd útskriftarnema VMA. Ég var meira svona að hugsa að það myndi gerast í brúðkaupi bestu vinkonu minnar þegar ég væri orðin nokkuð ölvuð. Þá gæti ég allavega róað taugarnar aðeins.
Þegar ég spurðist fyrir um hvernig ég ætti að skrifa þessa ræðu var mér sagt að hafa þetta stutt og hnitmiðað og soldið persónulegt og krúttlegt. Ég var búin að lofa sjálfri mér að ég yrði ekki leiðinlegi ræðuhaldarinn svo það var kannski bara gott að ég fékk ekki nema tvo daga til að undirbúa þetta. Annars hefði ég líklegast skrifað heila ritgerð og allir hefðu dáið úr leiðindum.
Þegar ég hugsa um að útskrifast frá VMA fyllist ég spenningi en á sama tíma söknuði. Undanfarið þrjú og hálft ár hafa verið ein þau bestu en jafnframt þau verstu sem ég hef fengið að upplifa. Efst er mér þó í huga þakklæti og auðmýkt. Ég er þakklát fyrir þessi ár í VMA og allt sem ég hef lært hér og fengið að gera. Sem dæmi má nefna það þegar ég endaði alveg óvart í nemendaráði Þórdunu og verð að viðurkenna að ég gerði það eiginlega bara svona upp á flippið að bjóða mig fram. Pétur Guðjóns sagði við mig að þetta yrði svona 20% vinna en svo 80% gaman. Þegar ég hugsa til baka núna er ég algerlega handviss um að hann hefur ruglast á þessum hlutföllum.
Ég held að ég hafi aldrei bölvað einhverju jafn mikið og þessu nemendafélagi en á sama tíma þykir mér svo ótrúlega vænt um það því það gjörbreytti minni framhaldsskólaupplifun og ég veit með vissu að þetta eru minningarnar sem munu sitja sem fastast í huga mér um ókomna tíð.
Ekkert kemur í staðinn fyrir þessa upplifun og er þetta eitthvað sem ég get nýtt mér alla ævi og mun taka með mér út í lífið. Ég lærði svo margt. Ég lærði að skipuleggja viðburði, leysa vandamál sem ég vissi ekki einu sinni að gætu orðið til og ég lærði að ég gat notað þetta sem afsökun fyrir öllu og enginn gat sagt neitt við því. Það eina sem ég þurfti að segja var: “Kemst ekki í tíma af því ég er að sinna nemendafélaginu”… ekki málið skellum í eitt stykki mætingu á þessa. Eða: ég get ekki skilað þessu verkefni strax því ég er að skipuleggja árshátíð… … minnsta mál í heimi þú skilar þessu bara einhvern tímann.
Eins og þið heyrið fengum við í nemó gríðarlega mikinn stuðning frá kennurum og endalausan sveigjanleika. Enda hefði ekkert af þessu sem við gerðum verið hægt ef ekki hefði verið fyrir endalausa þolinmæði kennaranna okkar og ótrúlegan meðbyr frá starfsfólki skólans. Takk öll sem eitt, þið eruð dásamleg í alla staði.
Þegar við rifjum upp framhaldsskólann eftir fimm eða tíu ár erum við ekki að fara að muna eftir stressinu sem fylgdi því að vera á síðustu stundu með ritgerð sem hefði getað klárast á hálftíma hefðum við bara nennt að byrja. Við munum heldur ekki muna eftir því hversu þurrar langlokurnar í mötuneytinu voru eða af hverju það var alltaf svona kalt á D-gangi.
Heldur erum við að fara að rifja upp þær stundir þegar við kynntumst okkar bestu vinum, einfaldlega af því okkur vantaði einhvern til að sitja hjá í tíma. Að mæta hálfsofandi í fyrsta tíma sem þurfti oftar en ekki að vera stærðfræði. Það var alltaf gaman að mæta í íslensku hjá Rannveigu því hún er með svo mikinn athyglisbrest að það er alltaf hægt að plata hana til að fara að spjalla um eitthvað annað. Eflaust munu margir muna eftir Völu kennara. Að vera í áfanga hjá henni var eins og að horfa á spennumynd. Þú veist aldrei hvað er að fara að gerast næst, hvenær hún mætir í tíma eða hvort hún mæti yfir höfuð, en þú veist þó að þegar hún mætir verður hún litrík til fara og hress í skapi. Og ég held að ég tali fyrir allavega sjúkraliðana þegar ég segi að við munum muna eftir Jóhannesi og endalausri ást hans á trjám.
Ég ætlaði ekki að hafa þetta of langt þannig að lokum langar mig bara að nýta tækifærið og þakka VMA fyrir allt. Þakka Sirrý og Bensa fyrir að treysta mér fyrir þessum ræðuhöldum. Ég vil þakka nemendafélaginu Þórdunu fyrir að gera skólann hundrað sinnum betri dag eftir dag á meðan það gerði mig samt gráhærða, þakka kennurunum mínum á sjúkraliðabraut sem nenntu að hlusta á mig röfla yfir því þegar mér fannst ég ekki fá nógu góða einkunn, sjúkraliðahópnum mínum fyrir að þola mig þegar ég fékk munnræpuna í tímum, mömmu og pabba fyrir að fara yfir öll verkefni og allar ritgerðir síðastliðin þrjú og hálft ár og síðast en ekki síst vil ég þakka Ómari fyrir allan stuðninginn í gegnum árin og fyrir að lesa yfir þessa ræðu.
Til hamingju með áfangann öll, njótið dagsins og gleðileg jól. Takk fyrir mig.