Ávaxtakarfan frumsýnd nk. sunnudag
Þá styttist í stóru stundina. Leikfélag VMA er á lokasprettinum í æfingum á Ávaxtakörfunni, frumsýning verður í stóra salnum í Hofi nk. sunnudag, 11. febrúar, kl. 14. Önnur sýning verður sama dag kl. 17. Tvær aðrar sýningar verða á verkinu, sunnudaginn 18. febrúar, kl. 14 og 17. Miðasala er í fullum gangi á mak.is.
Leikfélag VMA hefur eflst mjög á undanförnum árum og tekist á við æ stærri uppfærslur. Ávaxtakarfan er tvímælalaust sú viðamesta til þessa og mikið er í sýninguna lagt. Æfingar hafa staðið með hléum síðan 16. október á síðasta ári og því hefur æfingatíminn fyrir sýninguna verið óvenjulega langur.
Ávaxtakarfan er eftir Kristlaugu Maríu Sigurðardóttur og tónlistina, sem fyrir löngu hefur límst inn í þjóðarsálina, samdi Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson, tónlistarstjóri í Menningarhúsinu Hofi.
Pétur M. Guðjónsson er leikstjóri sýningarinnar og Jóhanna Guðný Birnudóttir – Jokka er honum til aðstoðar við uppfærsluna. Utan um sönginn í sýningunni hefur Sindri Snær Konráðsson haldið og notið góðrar aðstoðar Þórhildar Örvarsdóttur söngkonu. Fjölmargir aðrir hafa lagt hönd á plóginn, m.a. sér Ívar Helgason um hreyfingar, Harpa Birgisdóttir hannaði útlit sýningarinnar, Soffía Margrét Hafþórsdóttir hannaði búninga og saumaði ásamt nemendum og hljóð- og ljósavinnsla er í höndum tæknimanna Hofs.
Fimmtán leikarar koma fram í sýningunni en þegar allt er talið koma nokkrir tugir að sýningunni á einn eða annan hátt.
Pétur Guðjónsson leikstjóri segir að margt bærist í huga sér nú þegar líður að frumsýningu. “Ég hugsa til dæmis um hversu leiklistin er frek á okkur sem fáum þann smitsjúkdóm og hversu frábært fólk er í kringum þessa sýningu. Ég get líka ekki annað en hugsað út í það að Leikfélag VMA hefur vaxið ansi mikið að undanförnu. Þessi sýning sem brátt fer á fjalirnar er það stærsta sem Leikfélag VMA hefur ráðist í og er dæmi um vöxt leikfélagins.”
Pétur segist vera stoltur af því að allir þeir sem hafi komið að sýningunni hafi unnið svo hörðum höndum að verkefninu allan þann tíma sem hún hefur verið í undirbúningi. “Það er því ekki hægt annað en vera auðmjúkur og þakklátur. Svo verður maður óneitanlega feginn þegar frumsýning verður afstaðin og verkefnið komið í höfn en það verður líka tómleikatilfinning. Þó svo að þetta sé mikil vinna og álag á köflum þá er þetta gefandi og gaman. Ég neita því ekki að ég er með frumsýningarfiðring en ég trúi því og tel að þetta springi út á sunnudaginn og verði töfrum líkast,” segir Pétur M. Guðjónsson.