Bakteríur undir smásjánni
Það verður ekki annað sagt en að gjörvallur heimurinn sé nú um stundir ein allsherjar veirutilraunastofa og svo hefur verið bróðurpartinn af þessu ári, síðan Covid 19 bankaði á dyrnar og setti veröldina á hliðina á öllum sviðum.
Aldrei hefur verið eins áhugavert að læra allt um bakteríur og örverur, enda geta nemendur betur áttað sig á öllu er að þeim lýtur þegar heimsmyndin er skyndilega breytt. Alvarlegir veirufaraldrar eru ekki bara sagnfræði fyrir nemendur, þeir takast á við einn slíkan dags daglega, stærri og alvarlegri en í meira en eina öld.
Jóhannes Árnason hefur á þessari önn kennt nemendum á náttúrufræðibraut og sjúkraliðabraut áfanga í líffræði þar sem sjónum er m.a. beint að bakteríum í umhverfinu. Bæði er um að ræða bóklega og verklega kennslu. Þegar litið var inn í kennslustund var Jóhannes að leiða nemendur í gegnum huliðsheima bakteríanna. Þær voru skoðaðar í þaula og greindar með sexhundruð sinnum stækkun í smásjá. Þá má ýmislegt sjá sem augað greinir ekki.
Sigríður Huld skólameistari, sem er hjúkrunarfræðingur að mennt, leit við og rifjaði upp að líklega hafi hún ekki gripið í smásjána til slíkrar bakteríuskoðunar síðan hún var einmitt í sambærilegum áfanga í VMA forðum daga, hjá sama kennara, Jóhannesi Árnasyni.