Bangsamótorinn að taka á sig mynd
Í janúar sl. tóku vélstjórnarnemar á sjöttu önn og Jóhann Björgvinsson, kennari þeirra, að sér það verðuga verkefni að gera upp mótorinn í Bangsa - hinum hálfrar aldar gamla og sögulega snjóbíl í eigu Sigurðar Baldurssonar á Akureyri, og freista þess að fá hann til þess að ganga á ný. Bangsi hefur staðið óhreyfður í mörg ár en Sigurður eigandi hans er kominn á fullt við að gera hann upp og endurnýja. Einn af mikilvægustu þáttum í uppgerð Bangsa er vitaskuld vélin og þar kom til kasta vélstjórnarnema og Jóhanns kennara í áfanganum Viðhald véla.
Hafist var handa í janúar við að rífa mótorinn í sundur lið fyrir lið og skoða vel hvað þyrfti að endurnýja. Eitt og annað þurfti að endurnýja og varahlutir voru pantaðir frá Bandaríkjunum. Ekkert vandamál reyndist að finna varahlutina enda er þetta vel þekkt og algeng Chrysler vél.
Þegar þessar myndir voru teknar af mótornum í liðinni viku var frágangi og samsetningu ekki að fullu lokið en þegar allt verður komið á sinn stað verður Bangsa-mótorinn að sjálfsögðu ræstur til þess að ganga úr skugga um að allt sé eins og það á að vera - áður en hann verður afhentur eigandanum, Sigurði Baldurssyni.